Keyrt fyrir 350 þúsund á mánuði

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hanna

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þegið hæstar akstursgreiðslur þingmanna á árinu, að meðaltali tæpar 350 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í yfirliti yfir kostnaðargreiðslur þingmanna sem Alþingi hefur gefið út, en tölurnar ná yfir fyrstu tíu mánuði ársins. Kjarninn greindi fyrstur frá.

Kostnaður Ásmundar vegna notkunar bílaleigubíls nemur að meðaltali rúmum 280 þúsundum á mánuði, en því til viðbótar nemur eldsneytiskostnaður vegna notkunar eigin bíls 628.000 krónum. Tölurnar ná, sem fyrr segir, aðeins yfir fyrstu tíu mánuði ársins, en sé miðað að kostnaður verði sambærilegur síðustu tvo mánuði ársins má gera ráð fyrir að akstursgreiðslur Ásmundar á árinu nemi 4,2 milljónum króna.

Aksturgreiðslur þingmanna komust í hámæli árið 2018 er greint var frá því að akstursgreiðslur þingmanna hefðu numið 29 milljónum króna árið áður, og hefði Ásmundur þar af þegið 4,6 milljónir.

Næsthæstar akstursgreiðslur hefur Vilhjálmur Árnason, samflokksmaður hans, þegið, að meðaltali 230 þúsund krónur á mánuði. Þriðji er Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, en greiðslur til hans nema að meðaltali 160 þúsund krónum á mánuði. Þingmennirnir þrír búa allir á Suðurnesjum.

Starfskostnaður æði misjafn

Í tölum um endurgreiðslur til þingmanna er, auk akstursgreiðslna, innifalinn kostnaður vegna ferða innan- og utanlands, símkostnaður og starfskostnaður samkvæmt reikningum. Sé litið til alls þess kostnaðar hefur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, vinninginn, en greiðslur til hennar námu að meðaltali 460 þúsundum á mánuði. Á hæla hennar kemur Njáll Trausti Friðbergsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, með 455 þúsund krónur, og því næst Ásmundur með 430 þúsund krónur á mánuði.

Einn þingmaður sker sig úr þegar litið er til starfskostnaðar. Það er Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en starfskostnaður hans nemur einungis 41.000 krónum á tíu mánaða tímabili, eða um 4.100 krónum á mánuði. Er það allt símkostnaður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka