Skotsvæði fyrir flugelda verða afmörkuð á Skólavörðuholti, Klambratúni og Landakotstúni á gamlárskvöld. Á þessum stöðum hefur safnast saman mikill mannfjöldi ár hvert og með þessu er verið að draga úr hættu á slysum af völdum skotelda. Gæsluliðar verða á svæðunum frá kl. 22 til 01.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Þar segir einnig, að Skólavörðuholt verði að hluta lokað akandi umferð í samráði við lögregluna til að tryggja betur öryggi íbúa og gesta á svæðinu. Eru íbúar og gestir hvattir til að sýna aðgát og virða leiðbeiningar.