„Ómetanlegt að fá utanaðkomandi aðstoð“

„Þetta er ekkert einhver falleg á sem að liðast meðfram …
„Þetta er ekkert einhver falleg á sem að liðast meðfram grasi grónum bökkum.“ Frá leitinni við Gnúpá. Ljósmynd/Landsbjörg

„Þetta náttúrlega kom ofan í önnur gríðarlega mikil verkefni, svo allt vettlingafært fólk var í verkefnum þegar þetta dynur svo yfir. Það var dálítið mikið högg að fá þetta ofan í allt hitt, hitt var eiginlega alveg nóg sem við vorum að glíma við,“ segir Smári Sigurðsson, sem er í aðgerðastjórn björgunarsveita á Norðurlandi.

Hér ræðir hann við mbl.is um útkallið sem barst kl. 21:37 miðvikudagskvöldið 11. desember, en þá var tilkynnt um að 16 ára piltur hefði fallið í Gnúpá í Sölvadal inn af Eyjafirði. Þar hafði krapabylgja hrifsað hann með sér þar sem hann var með öðrum manni að huga að vatnsaflsvirkjun í ánni. Drengurinn hét Leif Magnús Grétarsson Thisland og var búsettur í Vestmannaeyjum.

„Þegar við fáum þetta útkall þá er ennþá leiðindaveður, það er mikil snjókoma og mikil ófærð. Það voru auðvitað björgunarmenn út um allt í verkefnum, það var ekki eins og menn væru allir heima að bíða eftir þessu, svo það tók svolítið í að manna þetta í fyrstu lotu, eðlilega. En menn drifu sig af stað, þeir sem voru tiltækir, og þeir sem voru komnir í hvíld komu aftur í hús til að fara frameftir,“ segir Smári í samtali við blaðamann, en þegar tilkynning barst um slysið voru að baki tveir fárviðrisdagar þar sem björgunarsveitir höfðu staðið í ströngu, ekki síst á Norðurlandi.

Smári Sigurðsson björgunarsveitarmaður á Akureyri.
Smári Sigurðsson björgunarsveitarmaður á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

„En það er nú þannig í svona verkefnum eins og þessu, þá gengur maður undir manns hönd til þess að leysa málin og það var strax komið snjóruðningstæki og við fórum frameftir á sleðum og snjóbíl, þannig að þetta gekk í raun ótrúlega vel að komast á vettvang en það var náttúrlega mikil ófærð og algjört skítviðri.“

Er á vettvang var komið var ljóst að aðstæður til leitar þar væru mjög erfiðar, en þrátt fyrir að Gnúpá sé tiltölulega lítil á er farvegur hennar um djúp gil og gljúfur. „Þetta er ekkert einhver falleg á sem að liðast meðfram grasi grónum bökkum. Hún fellur þarna niður í djúp gil og mikil gljúfur og þarna eru háir fossar ofan í gljúfrinu,“ segir Smári, sem bætir við að einnig hafi krapinn í ánni verið gríðarlegur, mikið hafði snjóað en einnig telja björgunarsveitir að ofar í Sölvadal hafi mörg snjóflóð fallið og þeim snjó svo skolað niður með Gnúpánni.

Fyrstu bjargir komu á staðinn í svartamyrkri og „mokandi hríð“ en björgunarsveitarmenn drifu sig strax í að fara meðfram ánni eins og hægt var við þessar aðstæður. Svo týndust til fleiri bjargir eftir því sem leið á nóttina. Landhelgisgæslan flaug með kafara frá sérsveit ríkislögreglustjóra og straumsvatnsbjörgunarmenn að sunnan og bættust þeir í hóp um 30-40 björgunarmanna sem þegar voru komnir á staðinn.

Þyrla Landhelgisgæslunnar við leit í ánni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar við leit í ánni. Ljósmynd/Landsbjörg

„Okkur veitti sannarlega ekki af auknu liði, allt okkar lið var búið að vera í verkefnum og örþreytt,“ segir Smári. „Við náðum fólki úr öðrum verkefnum þarna inn og það koma hópar frá höfuðborgarsvæðinu líka, keyrandi þarna um nóttina, og svo kemur heimafólk hér úr hvíld um morguninn og áfram gengur þetta alla nóttina og allan næsta dag.“

Óásættanleg áhætta að vera með menn í ánni

Síðdegis á fimmtudeginum flaug Hercules-flugvél danska hersins frá Reykjavík með aukinn mannskap og búnað til þess að taka þátt í leitinni.

„Við ætluðum þá að keyra inn í nóttina með öflugan hóp að leita ánna og fara í hana, en þá tókum við endurmat á verkefnið. Við náttúrlega sáum það að við vorum ekki í lífbjargandi verkefni lengur, það voru engar líkur á því og aðstæður hættulegar. Þá ákváðum við að setja öryggisstuðulinn enn hærra á okkar fólki og vera ekki að taka neinar frekari áhættur,“ segir Smári, en síðdegis á fimmtudeginum hafði krapabylgja farið af stað í ánni á svipstundu og lagt björgunarmenn sem voru að störfum ofan í ánni í stórhættu. Allt fór þó blessunarlega vel.

„Bara eins og hendi væri veifað kemur bylgja með krapa og vaktin sem var að fylgjast með ánni sá þetta og kallaði auðvitað og menn náðu allir að forða sér. En þá var tekin ákvörðun um að þetta væri ekki ásættanleg áhætta að vera í ánni. Þegar þetta gerist þá var liðið allt saman dregið upp og ákveðið að leita bara frá landi, en ekki fara ofan í ánna. Það var bara of hættulegt,“ segir Smári.

„Það var náttúrlega mikil ófærð og algjört skítviðri“
„Það var náttúrlega mikil ófærð og algjört skítviðri“ Ljósmynd/Landsbjörg

„Við drógum úr leitinni þarna [á fimmtudagskvöld] og höfðum bara vaktpósta þar sem við gátum komist að ánni og séð almennilega ofan í hana með ljóskösturum. Svo morguninn eftir vorum við búin að skipuleggja lítið átak í að leita alla ánna eins og hægt var á öruggan hátt og alveg niður í Eyjafjarðaránna, sem þessi á rennur í. Við leituðum áfram niður hana og fengum þyrluna og dróna og veðrið var orðið þokkalegt. Það skilaði síðan árangri þarna skömmu eftir hádegi, þá sást í eitthvað sem okkur sýndist vera líklegt og þyrlumaður seig þarna ofan í gljúfrið og staðfesti að um manninn væri að ræða. Sem betur fer fundum við hann,“ segir Smári, en drengurinn fannst á stað í ánni sem ómögulegt var að sjá til af bakkanum.

Allir til í að hjálpa ef þeir geta

Þar með lauk þessu erfiða verkefni, sem tók bæði mikið á þrek þeirra sem þar voru að störfum á slysstað og þeirra sem stóðu vaktina í aðgerðastjórn. Smári segir magnað hvað allir séu tilbúnir að leggja á sig.

„Það var búið að ganga ansi mikið á þarna í tvo sólarhringa og menn búnir að standa langar vaktir, verkefnin gríðarlega mörg út um allt Norðausturland. Við vorum með aðgerðastjórn hérna á Akureyri fyrir allt umdæmi lögreglunnar. Þetta var ekkert á þau bætandi verkefni bætandi, en ég held hins vegar að menn hafi leyst þetta eins vel og hægt var. Það er eiginlega dálítið magnað, í öllu þessu ferli, hvað menn eru til í að leggja á sig fyrir svona verkefni.

Hercules-vél danska sjóhersins flutti björgunarsveitarmenn á staðinn.
Hercules-vél danska sjóhersins flutti björgunarsveitarmenn á staðinn. Ljósmynd/Landsbjörg

Ekki bara björgunarsveitir og lögregla heldur líka bara verktakar sem haft var samband við ef það vantaði eitthvað og heimamenn í sveitinni þarna fremra rigguðu upp mat og kaffi í gömlu félagsheimili fyrir björgunarsveitarmenn. Þetta er mjög mikilvægt í þessu ferli, það leggjast einhvernveginn allir á eitt og það eru allir til í að gera gagn, ef þeir geta.

Þetta sýnir líka úr hverju þetta félag, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, er smíðað. Strax og þetta verkefni kemur upp þá koma hér bjargir annarsstaðar af á landinu inn á svæðið, menn eru tilbúnir að stökkva af stað þó að þeir séu á Selfossi, Akranesi, Reykjavík eða Reykjanesbæ, að koma hingað og keyra inn í nóttina til að koma hingað og hjálpa til.

„Það er eiginlega alveg magnað, menn stökkva út úr sínu …
„Það er eiginlega alveg magnað, menn stökkva út úr sínu daglega lífi frá fjölskyldu og eru bara til í að leggja sitt af mörkum. Það var bara ómetanlegt að fá utanaðkomandi aðstoð, því við vorum ekki aflögufær hvorki á mannskap eða á kröftum.“ Ljósmynd/Landsbjörg

Það er eiginlega alveg magnað, menn stökkva út úr sínu daglega lífi frá fjölskyldu og eru bara til í að leggja sitt af mörkum. Það var ómetanlegt að fá utanaðkomandi aðstoð, því við vorum ekki aflögufær hvorki á mannskap eða á kröftum. Við vorum náttúrlega í verkefnum og við þurftum áfram að sinna allskonar öðrum verkefnum þó að þessi leit væri í gangi. En allt gekk þetta upp,“ segir Smári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka