Baldur Arnarson
Formenn verkalýðsfélaga segja minni verðbólgu en spáð var auka líkur á að markmið lífskjarasamninganna náist. Sú óvenjulega staða er uppi á Íslandi að verðbólga mælist nú aðeins 2% í niðursveiflu.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir lífskjarasamningana hafa stuðlað að minni verðbólgu og vöxtum. Það hafi aftur sparað launþegum háar fjárhæðir í afborganir af lánum.
„Lífskjarasamningarnir eru, svo ekki verður um villst, að skila þeim árangri sem lagt var upp með,“ segir Vilhjálmur um stöðuna. Lækkun tekjuskatts um áramótin styrki kaupmátt láglaunafólks enn frekar.
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir útlit fyrir að verðbólgan verði við 2,5% markmið Seðlabankans út næsta ár hið minnsta. Með þetta í huga telur hún að raunlaun kunni að hækka meira 2020 en bankinn hafði spáð.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að þótt margt hafi gengið vonum framar í tengslum við samningana hafi hann þungar áhyggjur af mögulegum verðhækkunum hjá birgjum og hinu opinbera. Þá sé vaxandi atvinnuleysi hjá nýjum hópum áhyggjuefni, ekki síst ungu fólki.
Þegar kjarasamningarnir voru undirritaðir í byrjun mars voru um 6.000 einstaklingar á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun. Þeim hefur síðan fjölgað í 7.600.
Vísitala kaupmáttar hækkaði nær stöðugt á þessum áratug, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál i Morgunblaðinu í dag.