„Ekki frábært flugeldaveður“ á gamlárskvöld

Þannig lítur spáin út fyrir gamlársdag eins og staðan er …
Þannig lítur spáin út fyrir gamlársdag eins og staðan er núna. Hún gæti þó breyst á næstu dögum. Kort/Veðurstofa Íslands

Það spáir hlýju veðri, mikilli rigningu og strekkingsvindi víðast hvar um landið á gamlársdag og lítur því ekki vel út fyrir sprengjusérfræðinga landsins. Spáin gæti þó breyst á næstu dögum.

„Þær hafa verið mjög flöktandi spárnar og það er ekki hægt að segja neitt ákveðið nema að það er útlit fyrir að það verði hlýtt og rigning,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Þeir á Norðausturlandi gætu sloppið við úrhelli en það verður þó að öllum líkindum skýjað. Það verður „ekki beint stjörnubjartur himinn“.

„Það verður ekkert sérstakt flugeldaveður, nema þá bara að mengunin ætti ekki að vera til vandræða. Ef það er sæmilegur vindur þá myndast ekki reykjarmökkur eins og gerist þegar það er lygnt. Það verður ekki frábært flugeldaveður en ekki það slæmt að fólk láti það stoppa sig,“ bætir hann við.

Á nýársdag gæti svo kólnað á nýjan leik með tilheyrandi snjókomu eða slyddu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Suðaustlæg átt, 8-15 m/s og rigning eða slydda með köflum, hvassast syðst og vestast, en þurrt að kalla NA til. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast sið S-ströndina.

Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og slydda eða rigning með köflum, en lítilsháttar snjókoma um tíma N-lands. Hiti 0 til 5 stig.

Á mánudag:
Vestlæg átt og skúrir eða él, þurrt fyrir austan. Hiti kringum frostmark.

Á þriðjudag (gamlársdagur):
Ákveðin suðlæg átt með rigningu og sums staðar slyddu, en þurrt NA-lands fram á kvöld. Hlýnandi veður í bili.

Á miðvikudag (nýársdagur):
Útlit fyrir breytilegar áttir með snjókomu eða slyddu í flestum landshlutum og kólnandi veður.
Spá gerð: 26.12.2019 07:52. Gildir til: 02.01.2020 12:00.

Hugleiðingar veðurfræðings

Hlýnar allnokkuð næstu daga og umhleypingar um allt land. Talsverð óvissa er í spám og breytast talsvert milli keyrslna. Næstu þrír til fjórir dagar nokkuð ljósir en samt eru hlýindin ekki mjög mikil og því stutt í slyddu og jafnvel snjókomu.
Ef fólk hyggur á ferðalög fyrir áramót er æskilegt að fylgjast náið með veðurspám og færð á vegum svo allir komist þangað sem förinni er heitið.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert