Erfiðar leitaraðstæður við Dyrhólaey

Frá leitinni að Rimu.
Frá leitinni að Rimu. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Björgunarsveitin Víkverji hefur leitað Rimu Grunskyté Feliksasdóttur, sem talið er að hafi fallið í sjóinn við Dyrahólaey, síðan klukkan hálfellefu í morgun.

Leitarsvæðið nær frá Vík og út að Skógum og leitað hefur verið í fjörum. „Það er bara rok og rigning og alveg við það að vera sandrok í fjörunum. Þetta eru búnar að vera erfiðar leitaraðstæður,“ segir Orri Örvarsson, formaður Víkverja.

Hann reiknar með því að björgunarsveitin ljúki leitinni um þrjúleytið í dag eftir að búið verður að leita í nærliggjandi fjörum. Notast er við bíla og fjórhjól og er hópurinn níu manna sem stendur.

Í gær leitaði Víkverji töluvert, enda var veður gott og mikil fjara. Lauk leitinni um hálffimmleytið. „Við reynum að gera það sem við getum,“ segir Orri.

Mbl.is/Jónas Erlendsson

Búsett í Vík

Lögreglan á Suðurlandi hefur ekki leitað formlega að Rimu í dag. Seinni partinn í dag verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að það fari eftir veðurspá hvort formleg leit heldur áfram á morgun eða laugardag.

Rima flutti nýlega á Hellu en hún var áður búsett í Vík í Mýrdal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert