Félag íslenskra lungnalækna sendi frá sér áramótakveðju í dag þar sem félagið „hvetur landsmenn til að sýna einstaklingum með lungnasjúkdóma tillitssemi um áramót“.
Í kveðjunni er tekið fram að mengun vegna flugelda geti valdið öndunarfæraeinkennum hjá þeim sem eru viðkvæmir í öndunarfærum. Einkennin geta meðal annars verið hósti, mæði og andþyngsli en mengunin getur skert lífsgæði þeirra sem viðkvæmir eru og takmarkað möguleika þeirra til að taka þátt í hátíðahöldum um áramótin.
Í kveðjunni telur Félag íslenskra lungnalækna upp nokkrar leiðir sem færar eru til að lágmarka mengun flugelda. Almenningur getur þannig „dregið úr magni flugelda sem skotið er upp og valið aðra möguleika s.s. rótarskot í stað flugelda“, „forðast að skjóta upp flugeldum í íbúðahverfum“ og forðast sömuleiðis „stórar tertur og önnur skotfæri sem valda mikilli mengun við jörð“.
Fólk sem þjáist af lungnasjúkdómum getur einnig gripið til sinna ráða með því að hafa „glugga og dyr lokaðar svo mengun berist ekki inn“, komið rökum handklæðum við opnanlega glugga og dyr, hækkað hitastig innandyra og „leitað ráða á heilsugæslu um lyfjanotkun og haft innöndunarlyf við höndina“, samkvæmt kveðjunni.
Þar eru einnig útlistaðar aðgerðir sem sveitarfélög geta tekið upp. Til dæmis geta þau hvatt einstaklinga til að sleppa því að skjóta flugeldum upp í íbúðahverfum og boðið íbúum „upp á afmörkuð svæði til að skjóta upp flugeldum“.
Embætti landlæknis tekur í sama streng í tilkynningu sem embættið setti á vefsíðu sína í dag. Í henni er fólk með undirliggjandi öndunarfæra- og hjartasjúkdóma hvatt til að grípa til varúðaráðstafana vegna mengunar um áramótin. Á undanförnum árum hefur mengun af völdum skotelda farið langt yfir heilsuverndarmörk.
Til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum mengunar er fólk hvatt til að forðast útiveru þar sem mikil mengun er, loka dyrum og þétta glugga til að koma í veg fyrir að mengunin berist inn. Ef vart verður við öndunarerfiðleika og andþyngsli er fólk hvatt til að leita til heilbrigðisþjónustunnar.