Þorgerður Anna Gunnarsdóttir
Lögreglan á Suðurlandi hefur í samráði við svæðisstjórn björgunarsveita tekið ákvörðun um að fresta stærri leitaraðgerðum að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur um sinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni, en þar segir jafnframt að heimamenn í Vík hafi tekið að sér að nýta þá veðurglugga sem gefist til að fara um fjörur á leitarsvæðinu. Fyrirhugað er að kalla til stærri leitar um eða undir næstu helgi þegar veðurspá verður hagstæð.
Í dag var leitað á svæðinu frá Þjórsá austur um, allt undir Kúðafljót, á landi á fjórhjóladrifnum ökutækjum og með gangandi leitarmönnum þar sem farartæki komast ekki um, sem og úr lofti með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Leitin bar ekki árangur og gerði blautt færi, ísskarir og veður almennt leitarmönnum á austan til á svæðinu erfitt um vik.
Bænastund var haldin í Víkurkirkju í kvöld. „Það var alveg sneisafull kirkja, ofsalega vel sótt og mikill samhugur í fólki en eðlilega þung sorg,“ segir séra Haraldur M. Kristjánsson, sem leiddi stundina. Enn sé þó von um að Rima finnist.
„Þetta var mjög falleg stund og hugljúf, ég sagði nokkur orð og fór með bæn. Svo gáfum við fólki kost á að kveikja á kerti og það gerðu það margir.“
Fréttin hefur verið uppfærð.