„Pælingin er að hjóla þvert yfir Bandaríkin“

Jón Eggert Guðmundsson er hann lauk hringferð sinni um landið …
Jón Eggert Guðmundsson er hann lauk hringferð sinni um landið á hjóli árið 2016. Nú ætlar hann að þvera Ameríku. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Pælingin er að hjóla þvert yfir Bandaríkin,“ segir ævintýramaðurinn Jón Eggert Guðmundsson, sem er búsettur í Miami á Flórídaskaga. Hann ætlar í fimm þúsund kílómetra hjólatúr í upphafi nýs árs, frá borginni Mobile í Alabama-ríki og svo í vestur, alveg til San Diego í Kaliforníu og þaðan niður Kaliforníuskagann, til mexíkósku borgarinnar La Paz þar sem ævintýrið tekur enda.

Hann ætlar sér tæpa tvo mánuði í túrinn og hyggst vera í fullri vinnu með hjólaferðinni, en hann starfar sem kerfisfræðingur og getur hjólað hálfan daginn og svo setið og grúskað í tölvukerfum síðdegis ef hann er í nettengingu.

Hér má sjá hjólaleið Jóns Eggerts eins og hann hefur …
Hér má sjá hjólaleið Jóns Eggerts eins og hann hefur ráðgert hana.

Áætluð brottför er 5. janúar, frá Mobile sem áður segir, en Jón Eggert útskýrir í samtali við blaðamann að hann leggi upp þaðan því hann hefur áður hjólað frá Miami til Mobile og telur sig ekki þurfa að hjóla þann legg aftur. Blaðamaður spyr hvort hann nenni því ekki og Jón Eggert rekur upp roknahlátur.

„Ástæðan fyrir því að ég fer svona snemma af stað er vegna hita. Eins og oft er fjallað um er jörðin að hlýna vegna loftslagsbreytinga og það verður ofsalega heitt í eyðimerkunum í Nýju-Mexíkó og Kaliforníu þegar líður á árið. Fólk hefur verið að lenda í rosalegum vandræðum á þessari leið ef það hefur verið að fara þarna að sumarlagi,“ segir Jón Eggert í samtali við blaðamann og bætir við að á móti komi að það gæti orðið töluvert kalt í Klettafjöllunum, sem hann þarf að klífa á hjólinu.

„En það er þægilegra að klæða af sér kulda en hita,“ segir Jón Eggert.

Vanur langferðum

Jón Eggert er ekki óvanur líkamlegum þrekraunum sem þessum. Á síðasta ári reyndi hann við opinbert Guinness-heimsmet yfir lengstu þríþrautina og hljóp þá 1.456 kílómetra, hjólaði 5.700 kílómetra og synti 240 kílómetra frá 9. febrúar til 26. ágúst, án þess að missa dag úr hreyfingu. Hann segir heimsmetabók Guinness enn vera að fara yfir metið.

Í vor fór hann svo í langa hjólaferð niður alla austurströnd Bandaríkjanna, frá Halifax í Kanada og heim til Miami í Flórída.

Hann hefur einnig bæði hjólað og gengið lengstu mögulegu leið í kringum Ísland, rúmlega 3.400 kílómetra leið. Einnig er Jón Eggert með áfangasund í gangi, hringinn í kringum landið, sem hann hóf árið 2017 og segist ætla að ljúka á 7 árum. Nú er þó komið að því að þvera Ameríku.

„Mig hefur alltaf langað að fara þvert yfir Bandaríkin, ég hef aldrei gert það áður. Mig hefur langað að gera þetta og ég ætla að skella mér á það.“

Jón Eggert á fleygiferð á fáki sínum.
Jón Eggert á fleygiferð á fáki sínum. Ljósmynd/Aðsend

Sest niður eftir hjólatúrinn og vinnur

Spurður út í það hvort vinnuveitendur hans séu sveigjanlegir varðandi frítöku til þessara ævintýraferða segir Jón Eggert að hann fái smá frí, en svo verði hann bara að vinna á leiðinni.

„Ég þarf í rauninni ekki neina skrifstofu, svo ég verð að vinna á meðan ég er að hjóla. Ég reyni að vera búinn með hjóladaginn um kl. 10 yfirleitt. Þá bara fer ég á hótelið og í nettengingu og byrja að vinna. Ég hef gert þetta áður svo ég er orðinn vanur þessu,“ segir Jón Eggert, sem verður að hjóla hátt í 85 kílómetra á dag ef hann ætlar að ná settu marki á tveimur mánuðum.

Langar að hjóla umhverfis hnöttinn

Hann er strax farinn að hugsa um næstu verkefni og lætur sig dreyma um það að hjóla í kringum jörðina á næstu árum, sömu leið og Ewan McGregor Hollywood-leikari og félagi hans fóru á mótorhjólum um árið og fjölluðu um í sjónvarpsþáttaröðinni The Long Way Round. Sú leið er 31.000 kílómetra löng og liggur frá London til New York.

„Það hefur enginn farið þá leið á hjóli, það væri gaman að vera fyrstur,“ segir Jón Eggert, sem hefur nóg fyrir stafni, það er auðheyrt.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka