Stal fyrir hundruð þúsunda í Leifsstöð

Maðurinn fór ránshendi um Leifsstöð á Þorláksmessu.
Maðurinn fór ránshendi um Leifsstöð á Þorláksmessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður sem handtekinn var á flugvellinum í Varsjá í Póllandi á Þorláksmessu vegna þjófnaðar úr flugstöðinni reyndist einnig hafa í fórum sínum talsvert af þýfi úr fríhöfninni í Leifsstöð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að pólskir lögreglumenn hafi fundið umtalsvert magn af ilmvötnum og áfengi í fórum mannsins, sem hann reyndist hafa hnuplað úr Leifsstöð í Keflavík.

Um var að ræða varning að verðmæti hátt á þriðja hundrað þúsund krónur, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar. „Við skoðun á eftirlitsmyndavélum í fríhöfninni sást hvar maðurinn var að hnupla vörunum. Málið er í vinnslu.“

Jólagjöf og greiðslukorti stolið úr bifreið

Þá var brotist inn í bifreið í Keflavík og tjáði eigandi hennar lögreglunni á Suðurnesjum að hann saknaði meðal annars jólagjafar og veskis með greiðslukorti. Kortið var komið í notkun þegar þjófnaðurinn uppgötvaðist og lét eigandinn loka því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka