Vilhjálmur Einarsson látinn

Vilhjálmur Einarsson er látinn.
Vilhjálmur Einarsson er látinn.

Vil­hjálm­ur Ein­ars­son lést á Land­spít­al­an­um í gær, laug­ar­dag­inn 28. des­em­ber, 85 ára að aldri.

Vil­hjálm­ur fædd­ist á Hafra­nesi við Reyðarfjörð 5. júní 1934. Hann var son­ur hjón­anna Ein­ars Stef­áns­son­ar frá Mýr­um í Skriðdal, full­trúa á Eg­ils­stöðum, og Sig­ríðar Vil­hjálms­dótt­ur frá Há­nefs­stöðum í Seyðis­firði. Vil­hjálm­ur gekk í barna­skól­ann á Reyðarf­irði, far­skól­ann á Völl­um, Gagn­fræðaskól­ann á Seyðis­firði og Alþýðuskól­ann á Eiðum. Að loknu lands­prófi frá Eiðum inn­ritaðist Vil­hjálm­ur í Mennta­skól­ann á Ak­ur­eyri árið 1951 og út­skrifaðist sem stúd­ent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vil­hjálm­ur skóla­styrk við Dart­mouth-há­skól­ann í Banda­ríkj­un­um og út­skrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á lista­sögu. Þá sótti Vil­hjálm­ur fram­halds­nám í upp­eld­is- og kennslu­fræði við Gauta­borg­ar­há­skóla 1974-1975 og 1990-1993.

Atli Steinarsson (til vinstri), fyrsti formaður Samtaka íþróttafréttamanna, og Vilhjálmur …
Atli Stein­ars­son (til vinstri), fyrsti formaður Sam­taka íþróttaf­rétta­manna, og Vil­hjálm­ur Ein­ars­son, sem fyrst­ur var kjör­inn, með verðlauna­grip­inn sem hann tók við fimm sinn­um. mbl.is/​Brynj­ar Gauti

Vil­hjálm­ur lagði mikið af mörk­um til ís­lenskra fræðslu- og æsku­lýðsmá­la. Hann var kenn­ari við Héraðsskól­ann á Laug­ar­vatni, 1957-1958; skóla­stjóri við Héraðsskól­ann á Laug­ar­vatni, 1959 vorönn; kenn­ari við Gagn­fræðaskóla Aust­ur­bæj­ar, 1959-1960, og kenn­ari við Sam­vinnu­skól­ann á Bif­röst, 1959-1965. Þá var Vil­hjálm­ur skóla­stjóri Héraðsskól­ans í Reyk­holti á ár­un­um 1965-1979 á miklu blóma­skeiði skól­ans. Loks gegndi Vil­hjálm­ur starfi skóla­meist­ara Mennta­skól­ans á Eg­ils­stöðum frá upp­hafi skól­ans 1979 til árs­ins 2001 og vann þar mikið brautryðjand­astarf. Frá 2001 var Vil­hjálm­ur um ára­bil stunda­kenn­ari við Mennta­skól­ann á Eg­ils­stöðum og árið 2001 stofnaði hann Náms­hringja­skól­ann, sem var í nám­skeiðaformi. Meðal annarra starfa má nefna að hann stofnaði og rak Íþrótta­skóla Hösk­uld­ar og Vil­hjálms ásamt Hösk­uldi Goða Karls­syni íþrótta­kenn­ara 1960-1972. Var skól­inn starf­rækt­ur í Mos­fells­dal, Varmalandi og Reyk­holti í Borg­ar­f­irði. Vil­hjálm­ur stofnaði bóka­for­lagið Að aust­an, sem gaf út tvær bæk­ur: Mag­ister­inn og Silf­urmaður­inn. Hann var formaður Ung­menna­sam­bands Borg­ar­fjarðar 1967-1970 en þá var m.a. Sum­ar­hátíðin í Húsa­felli sett á lagg­irn­ar.

Vilhjálmur Einarsson með foreldrum sínum, Sigríði Vilhjálmsdóttur og Einari Stefánssyni, …
Vil­hjálm­ur Ein­ars­son með for­eldr­um sín­um, Sig­ríði Vil­hjálms­dótt­ur og Ein­ari Stef­áns­syni, við heim­kom­una frá Mel­bour­ne þar sem hann vann til silf­ur­verðlauna. mbl.is/Ó​laf­ur K. Magnús­son

Vil­hjálm­ur er meðal frækn­ustu íþrótta­manna Íslend­inga fyrr og síðar. Meðal ann­ars vann hann til silf­ur­verðlauna fyrst­ur Íslend­inga á Ólymp­íu­leik­un­um í Mel­bour­ne 1956 og var 5 sinn­um kjör­inn íþróttamaður árs­ins. Vil­hjálm­ur er hand­hafi Ridd­ara­kross hinn­ar ís­lensku fálka­orðu fyr­ir fram­lag í þágu íþrótta- og upp­eld­is­mála.

Vil­hjálm­ur læt­ur eft­ir sig eig­in­konu, Gerði Unn­dórs­dótt­ur, og syn­ina Rún­ar, Ein­ar, Unn­ar, Garðar, Hjálm­ar og Sig­mar, auk 19 barna­barna og 14 barna­barna­barna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert