Öllum sjálfvirkum almenningssalernum í miðbæ Reykjavíkur verður lokað frá og með 1. janúar næstkomandi vegna þess að borgaryfirvöld ákváðu að endurnýja ekki samning við EHermannsson ehf. (áður AFA JCDecaux ehf.) um rekstur almenningssalernanna og verða þau fjarlægð á næstu dögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá EHermannson ehf.
Í henni segir að rekstur salernanna hafi hafist fyrir tæpum 20 árum og að um 100.000 manns noti þau árlega. Ljóst sé að með ákvörðun borgarinnar muni þjónusta við borgarbúa og ferðamenn skerðast verulega.
„Sérstaklega er viðbúið að ferðamenn leiti í staðinn inn á veitingastaði, verslanir og önnur þjónustufyrirtæki,“ segir í tilkynningunni sem Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri EHermannsson, skrifar undir.
„Salernin við Hlemm og Hallgrímskirkju hafa verið mikið notuð, enda ekki önnur almenningssalerni við þessa fjölsóttu staði. Salerninu í Hljómskálagarðinum, sem var komið fyrir vegna íbúakosningar, verður einnig lokað,“ skrifar Einar einnig.
Að lokum þakkar EHermannson samfylgdina síðustu 20 ár.