Annasamir dagar í Vínbúðunum

Síðustu dagar ársins eru annasamir í Vínbúðunum.
Síðustu dagar ársins eru annasamir í Vínbúðunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðstoðarforstjóri ÁTVR segist búast við fjölda viðskiptavina í verslanir Vínbúðanna í dag. Hún telur þó ólíklegt að metfjöldi landsmanna muni kaupa sér áfengi í dag líkt og raunin var á Þorláksmessu þetta árið. 

„Dagurinn í dag og á morgun eru auðvitað mjög annasamir dagar og hafa verið lengi. Við búum okkur að sjálfsögðu undir það að mikið verði að gera og mikill fjöldi í verslunum en ég á síður von á því að það verði sami fjöldi og var á Þorláksmessu. Það var óvenjumargt fólk þann dag og svo var ívið minna á aðfangadag, minna en við höfum stundum séð, segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í samtali við mbl.is. 

Met var slegið á Þorláksmessu þessa árs þegar 46.000 landsmenn lögðu leið sína í vínbúðir landsins, eða tæplega áttundi hver Íslendingur. Sigrún telur þó ólíklegt að það met verði slegið í dag, en þó sé búist við miklum fjölda í vínbúðunum. 

„Í fyrra var lokað á þessum degi, 30. desember, og mjög mikið að gera á gamlársdag svoleiðis að þetta dreifist alltaf eftir árum,“ segir Sigrún. 

Sigrún segir að mikil aukning sé á sölu á freyði- og kampavíni síðustu daga ársins, svoleiðis að tekið sé eftir, en að einnig sé selt mikið af léttvíni og bjór. 

Hefðbundinn opnunartími er í Vínbúðum í dag, en á morgun verður opið klukkan 9 til 14 á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, í Reykjanesbæ og á Selfossi, en frá 10 til 13 annars staðar á landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert