„Getur skapað hættu“

Hross hópa sig saman í Húnavatnssýslu í desember.
Hross hópa sig saman í Húnavatnssýslu í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Vagn Stefánsson, yf­ir­lög­regluþjónn á Norður­landi vestra, segir að hætta geti skapast víða í sveitum ef hross fælast þegar flugeldum er skotið upp á gamlárskvöld vegna þess hversu mikill snjór er í Skagafirði og girðingar víða á kafi eða brotnar. 

Hann segir að ástandið sé öðruvísi í Skagafirðinum en oft áður á þessum árstíma þar sem girðingar eru á kafi og margar brotnar eftir óveðrið fyrr í mánuðinum. Bændur og eigendur hrossa séu mjög meðvitaðir um ástandið og fylgist með skepnum sínum. 

Ekki hafi verið gripið til neinna sérstakra ráðstafana vegna þessa enda varla hægt annað en að hvetja fólk til að fara varlega á vegum. Sérstaklega á fjallvegum þar sem afréttur er og girðingar liggja niðri. Þetta getur skapað hættu,“ segir Stefán Vagn. 

Björgunarsveitarfólk þurfti að grafa upp hross í óveðrinu fyrir jól.
Björgunarsveitarfólk þurfti að grafa upp hross í óveðrinu fyrir jól.

Hann segir að mikið hafi tekið upp af snjó undanfarna daga í þíðunni á Sauðárkróki og nágrenni þannig að ástandið hafi batnað mjög. En talsvert mikill snjór er víða annars staðar í umdæmi lögreglunnar á Sauðárkróki.

Matvælastofnun bendir eigendum hrossa á að hestum sem komnir eru á gjöf í hesthúsum skuli gefið vel, ljósin höfð kveikt og útvarp í gangi.

Gott er að gefa hestum vel sem eru á útigangi og halda þeim á kunnuglegum slóðum, þar sem þau fara sér síður að voða ef hræðsla grípur þá. Ef hægt er að setja hesta inn er það öruggast.

Eigendur ættu helst að fylgjast með hestunum ef því verður komið við, eða að minnsta kosti vitja þeirra sem fyrst eftir lætin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka