Rannsókn á andláti manns sem féll fram af svölum í fjölbýlishúsi við Skyggnisbraut í Úlfarárdal 9. desember sl. stendur enn yfir. Einn er í gæsluvarðhaldi vegna málsins en fjórir til viðbótar, sem voru handteknir á vettvangi, eru með réttarstöðu sakbornings.
„Málið er enn í rannsókn, þetta er umfangsmikið mál og ekkert meira um það að segja,“ segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Maðurinn sem situr í varðhaldi er um fimmtugt og er frá Litháen, en hefur búið hér á landi um margra ára skeið. Hann verður í gæsluvarðhaldi til 16. janúar. Maðurinn sem lést var á sextugsaldri og einnig frá Litháen.