Rannsóknarnefndin fundar í dag

Blindbylur var á Akureyri þegar veðrið gekk yfir landið.
Blindbylur var á Akureyri þegar veðrið gekk yfir landið. mbl.is/Þorgeir

Rannsóknarnefnd almannavarna kemur saman í dag til að hefja umfangsmikla rannsókn á viðbrögðum og viðbragðsáætlunum í óveðrinu sem fór yfir landið í mánuðinum. 

Rannsóknarnefndin hafði aldrei verið virkjuð áður en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gerði það fyrr í þessum mánuði. Þó hefur Alþingi kosið í hana með reglubundnum hætti frá árinu 2008. 

Er því um að ræða fyrstu rannsókn á almannavörnum á þessum grundvelli. 

Nefndin kom saman 16. desember og kemur saman í dag að öðru sinni á vinnufundi. Herdís Sigurjónsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að farið verði yfir það hvernig nefndin kemur til með að vinna að gagnaöflun, en hún var á leið sinni á fund nefndarinnar þegar blaðamaður náði tali af henni. 

„Þetta er vinnufundur og mögulega verður annar 2. janúar. Við ætlum að setjast yfir þetta, þar sem þetta er fyrsta rannsóknin af þessu tagi þarf náttúrlega að vanda sig vel. Þetta er ekkert að hlaupa frá okkur og við erum komin til að vera og munum líklega gera álíka rannsóknir á öllum atburðum sem verða eftir þetta. Þannig að við þurfum að ná okkur í mikið af grunngögnum og slíku, þetta er heilmikil undirbúningsvinna,“ segir Herdís. 

Rannsókn nefndarinnar á að leiða það í ljós hvernig viðbragðsáætlanir hafi verið og hvernig viðbragðsaðilar hafi unnið eftir þeim í óveðrinu og í kjölfar þess.

Herdís Sigurjónsdóttir, formaður rannsóknarnefndar almannavarna.
Herdís Sigurjónsdóttir, formaður rannsóknarnefndar almannavarna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka