Stærðfræðin krökkunum erfiðust

Tveir íslenskir ferðamálavíkingar á Tenerife, Jóhann og Anna, hafa komið …
Tveir íslenskir ferðamálavíkingar á Tenerife, Jóhann og Anna, hafa komið ár sinni vel fyrir borð og eru flestum fróðari um strauma og stefnur í þessari nýju fríparadís Íslendinga sem þó er auðvitað langt í frá glæný segja þau og rifja upp ferðir Guðna heitins í Sunnu með íslenska hópa til Tenerife snemma á níunda áratugnum. Ekkert er nýtt undir sólinni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Anna B. Gunnarsdóttir og Jóhann Kristján Kristjánsson (Anna notar eingöngu B-ið sem millinafn) hafa marga fjöruna sopið í ferðaþjónustu, reyndar starfað við hana alla sína starfsævi.

Þessi geðþekku hjón, sem ofan á allt annað ferðatengt kynntust í námi við Leiðsögumannaskólann við Menntaskólann í Kópavogi snemma aldar, deila búsetu sinni milli Íslands og spænsku eyjarinnar Tenerife ásamt börnum sínum Elísu og Gunnari, níu og tíu ára, reka hjóla- og rafskutluleiguna Tours and Bikes en hafa nú bætt við sig langþráðu leyfi til að selja afþreyingar- og upplifunarferðir auk siglinga milli allra Kanaríeyjanna. Þar þurfti þó göngu milli Pontíusar og Pílatusar og tók leyfisveitingin heilt ár.

„Hér er nánast engin rafræn stjórnsýsla,“ segir Jóhann, eða Jói eins og Íslendingasamfélaginu á Tenerife er tamara að nefna hann, þegar hann rifjar upp umsóknarferlið. „Við vildum hafa þetta allt pottþétt, öll leyfismál og allt slíkt í hundrað prósent lagi, bókhaldsmál og skattamál, áður en við færum að auglýsa okkur,“ en þau hjónin ráku alla markaðssetningu fyrirtækisins þar til nýlega gegnum Facebook-síðu. Á því verður þó brátt gerð bragarbót segja þau og hefur fyrsta skrefið þegar verið stigið með bókunarsíðu á lýðnetinu.

Þungur róður í byrjun

Leyfin voru þó ekki auðsótt í greipar spænskrar stjórnsýslu. „Hér þarf að mæta með frumrit af öllum pappírum og svo ljósrit af þeim líka,“ segir Jói frá og getur ekki varist hlátri þegar hann rifjar upp að ofan á þetta pappírsfargan hafi hann svo verið beðinn að hinkra á meðan tekið var ljósrit af ljósritinu sem hann átti svo að fá sem sitt eintak þrátt fyrir að halda þó frumritunum.

Anna B. Gunnarsdóttir og Jóhann Kristján Kristjánsson eru ekki leiðinlegasta …
Anna B. Gunnarsdóttir og Jóhann Kristján Kristjánsson eru ekki leiðinlegasta fólkið að spjalla við á Tenerife. Þau hafa unnið við ferðamál alla sína starfsævi og kynntust auk þess í námi í Leiðsöguskólanum. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

 „Þetta var rosalega þungur róður í byrjun,“ játar Anna sem auk þess starfar hjá ferðaskrifstofunni Atlantik á Íslandi sem markaðssetur Frónið sem áningarstað skemmtiferðaskipa. Hún er á Íslandi við þann starfa á sumrin en í fjarvinnu frá Tenerife vetrarmánuðina. Þau keyptu fyrirtækið á Tenerife af Íslendingum í fyrrahaust en brotalöm hafði þá verið á rekstrinum sem að sögn Önnu var ekki alveg á þeim stað sem þau höfðu átt von á. En þá var bara að bretta upp ermarnar og nú eru þau hjón komin í var.

Viðskiptavinahópurinn er fjölbreyttur og Íslendingar þar ekki í meirihluta, að sögn Jóhanns, þótt mörlandinn spígspori nú sem aldrei fyrr um götur eyjarinnar. Bretarnir eru fjölmennastir af þessum fimm, sex milljónum ferðamanna sem koma til Tenerife á ári, segir hann, en Skandinavíuþjóðirnar eru líka áberandi. Matsalur Nostalgia-barsins, þar sem viðtalið fer fram, rennir reyndar stoðum undir þessa tölfræði en þar sitja tugir finnskra ellilífeyrisþega sem hafa vetursetu á Tenerife, borða á barnum á laugardagskvöldum, spila þar bingó og enda svo allt saman á karaókí-söng sem sumur hver er ágætur. Annar minna.

Ekki veifa peningunum þínum

„Þetta byrjar svona 2005, ´06,“ svarar Jói, spurður út í Íslendingasprengjuna sem nú kveður svo rammt að. „Guðni [heitinn Þórðarson] í Sunnu byrjaði að að fara hingað með fólk á níunda áratugnum og svo bættust aðrar ferðaskrifstofur við. Af hverju þróast þetta svona? Ég veit það ekki,“ svarar hann eigin spurningu af hreinskilni. „Loftslagið hérna er mjög milt, það er örlítið hlýrra hérna en á Gran Canaria [nágrannaeyjunni í norðri],“ segir hann enn fremur og nefnir aukinheldur að á Tenerife sé umhverfið mjög öruggt. „Ég segi samt alltaf við fólk „ekki veifa peningunum þínum hérna,“ en gildir það ekki bara alls staðar?“ spyr Jói kíminn og hefur líklega nokkuð til síns máls.

Gunnar Ingi og Elísa Eva Jóhannsbörn eiga foreldra í ferðamannabransanum …
Gunnar Ingi og Elísa Eva Jóhannsbörn eiga foreldra í ferðamannabransanum á spænsku eyjunni Tenerife. Þau ræddu við mbl.is um stranga kennara, pínu erfiðan skóla og söknuðinn eftir SS-pylsum, kjötbollunum hennar ömmu og frændfólkinu. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

Börn Önnu og Jóhanns, Gunnar Ingi Jóhannsson, tíu ára, og Elísa Eva Jóhannsdóttir, níu ára, hafa meðan á viðtali stendur att kappi við eiginkonu blaðamanns í knattborðsleik og eirt þar hvorki konum né kirkjum eins og þar segir. Þrátt fyrir ungan aldur tala þau orðið reiprennandi spænsku. „Þau eru miklu betri en við,“ segir Anna og brosir með öllu andlitinu, en spænskt menntakerfi tók systkinunum þó engum silkihönskum og þótti vart stætt á öðru en boða þau í viðtal þegar hlé gafst frá knattleikum til að ræða menntamál og eins hvers þau sakna frá Íslandi. Varð Elísa þar fyrst fyrir svörum.

Saknar SS-pylsna

„Bara vel og gaman að búa hér,“ segir hún, innt eftir lífinu á Tenerife almennt. En skólinn? „Erfiður,“ svarar Elísa og dregur örlítið fyrir sólu. Hvað með kennarana? „Strangir,“ kemur hiklaust. „En þetta er samt orðið aðeins svona léttara,“ segir þessi níu ára stúlka hugsi. Hvar skyldi þá söknuðurinn frá Íslandi hvíla þyngst? „Ég sakna bestu vinkonu minnar, og kannski frænda og frænkna,“ segir Elísa. Hvað þá með íslensk matvæli? „Ég sakna bara SS-pylsu,“ er svar sem greinilega kemur frá hjartanu og hefur blaðamaður sjaldan sammælst eins nokkurri mannveru, enda sjálfur búsettur í Noregi.

Anna og Jói hafa marga fjöruna sopið í þjónustu við …
Anna og Jói hafa marga fjöruna sopið í þjónustu við ferðamenn, þau eru bæði lærðir leiðsögumenn og hafa starfað alla sína ævi við ferðaþjónustu auk þess að reka rafskutluleigu á Tenerife sem nú hefur að lokum, eftir eitt ár af ljósritum og skriffinnsku spænskrar stjórnsýslu, fengið vottun til að hafa milligöngu um allar löglegar afþreyingar- og siglingaferðir um Kanaríeyjar. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

 Gunnar bróðir hennar er þó gagnrýnni. „Mér finnst ekkert það skemmtilegt að búa hérna en það gengur bara allt í lagi,“ segir hann og dregur seiminn. En miðað við Ísland, það er varla bara veðrið sem ræður úrslitum? „Nei, en það gengur bara betur á Íslandi. Sumt gengur samt betur hér,“ kemur þó eftir stutta umhugsun. Hvers skyldi hann þá sakna helst? Vina minna, og kannski kjötbollanna sem amma gerir,“ eru lokaorðin.

Fjölskyldufaðirinn fer ekki í grafgötur með að íslensk-spænsk búseta með börn á grunnskólaaldri er ekki eilífur dans á rósum. „Það var erfitt að vera með þau svona mikið úr skóla heima [á Íslandi]. Þess vegna datt okkur í hug að prófa hvort þau gætu farið í skóla hérna,“ segir Jóhann og bætir því við að fyrstu mánuðirnir í spænskum grunnskóla hafi verið afkvæmum hans mjög erfiðir.

„Þá átt þú að tala spænsku“

„Kennararnir tala fæstir nokkra ensku, allt fer fram á spænsku frá fyrsta degi,“ rifjar Jói upp og segir frá ófáum símtölum frá skólastjórnendum í byrjun þar sem þau foreldrarnir voru boðaðir á fundi um framtíð barnanna. Hann starfaði árum saman hjá flugfélagi með aðsetur í Madríd, höfuðborg í órafjarlægð, og þar á hans spænska tunga rætur sínar.

„Mállýskan á Tenerife er gjörólík, mun nær suðuramerísku,“ segir Jói og hlær. „Svo kom maður á kennarafund og ég skildi ekki allt sem sagt var. „Gætirðu nokkuð talað örlítið hægar?“ spurði ég og svarið var einfaldlega: „Fyrirgefðu, býrð þú ekki hérna? Ert þú ekki með börn hér í skóla? Þá átt þú að tala spænsku.“,“ segir faðirinn og tekur fram að hann sé þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að læra og tala tungumálið þar sem fólk kýs sér búsetusvæði.

Stærðfræðin reyndist börnunum þó verulega óþægur ljár í þúfu og segir móðir þeirra spænska grunnskólastærðfræði á allt öðru stigi en þá íslensku. „Á Íslandi komu þau heim með dæmi sem voru tveir sinnum tveir og tveir sinnum fjórir en á sama skólastigi hér voru dæmin 378,50 sinnum 32,77 og jafnerfið deilingardæmi,“ segir Anna og maður hennar grípur orðið:

„Ég var alveg gáttaður. Þetta var einfalt fyrir þau þegar þeim var kennt þetta, kannski erum við bara ekki að gera nógu miklar kröfur til barna okkar, ég veit það ekki,“ segir hann og talið berst stuttlega að nýlegri PISA-könnun sem þó var ákveðið að láta kyrra liggja í þessu viðtali enda líklega að bera í bakkafullan lækinn sé litið til nýlegrar umfjöllunar á Íslandi.

„Þegar ég sé myndir af snjó á Íslandi langar mig …
„Þegar ég sé myndir af snjó á Íslandi langar mig bara að stökkva upp í næstu vél,“ segir Jóhann. Bæði sakna þau íslenska vatnsins en að búa erlendis er einfaldlega tvíeggjað sverð, velja þarf og hafna. Ljósmynd/Rósa Lind Björnsdóttir

Senn líður að kveðjustund. „Við erum ekki flutt frá Íslandi,“ segir Anna, augljóslega ófús að skera endanlega á þá römmu en kunnu taug er rekka dregur föðurtúna til. Eiginmaðurinn tekur undir, snjórinn á Íslandi er eitthvað sem hann saknar af sál og hjarta. „Þegar ég sé myndir af snjó á Íslandi langar mig bara að stökkva upp í næstu vél,“ segir hann hlæjandi og þau hjón sammælast einnig um ást og söknuð gagnvart íslenska vatninu hreina og tæra.

Anna og Jói, ákaflega geðþekkir og eftirminnilegir viðmælendur, sjá þó fram á áframhaldandi dvöl í Íslendinganýlendunni Tenerife, að minnsta kosti hálft árið. Er það vegna veðursins eða er það ef til vill bara vegna þess að þau þurfa ekki að læra spænska stærðfræði? Hver veit?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert