Svifryksmengun fer líklega yfir heilsuverndarmörk

Mynd úr safni frá því fyrir aldamót.
Mynd úr safni frá því fyrir aldamót. mbl.is/Árni Sæberg

Búist er við svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2020 vegna mengunar frá flugeldum en einnig að styrkurinn falli hratt þegar líða tekur á nýársnótt. Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að sýna aðgát og huga að börnum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki og þessum hópi er bent á að halda sig innandyra þegar mest gengur á og loka vel að sér. Heilsuverndarmörkin á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Hér er hægt að fylgjast með styrk svifryks. 

Borgurum er jafnframt bent á að hægt er að kaupa rótarskot Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Rótarskotið er ágætur valkostur fyrir þá sem vilja styrkja starf björgunarsveitanna án þess að kaupa flugelda. Gæludýraeigendum er enn fremur bent á að huga vel að dýrum sínum því þau óttast hávaða frá flugeldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert