Árið 2019 var annað árið í röð með hverfandi inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði. Námu þau aðeins broti af viðskiptunum 2015-17. Seðlabankinn getur brugðist við gengisbreytingum með því að kaupa eða selja erlendan gjaldeyri.
Gengi krónu hefur haldist mjög stöðugt síðan í byrjun nóvember 2018. Gengið gaf eftir haustið 2018 en óvissa var þá í ferðaþjónustu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir gjaldeyrismarkaðinn hafa verið í góðu jafnvægi síðustu tvö ár. Það bendi aftur til að gengi krónu sé í jafnvægi. Hún sé hvorki sterk né veik heldur hæfileg. Útlit sé fyrir að gengið verði stöðugt á næstunni.
Þá bendir Ásgeir á að töluverð aðlögun hafi orðið í íslenska hagkerfinu í kjölfar samdráttar í ferðaþjónustu. Á móti minni útflutningi þjónustu komi mun minni innflutningur. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu sé ekki útlit fyrir veikingu krónu næsta kastið.