Ungt fólk stöðugt í beinni

Áramótaávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Áramótaávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Þótt aðgengi að upplýsingum sé mikið, eru þær misáreiðanlegar og til eru flókin algrím sem stýra okkur á netinu og halda fólki stundum í eigin samfélagskima, sem það heldur að sé samfélagið allt. Fyrir vikið dofnar stöðugt skilningur á þeim sem kunna að hugsa öðruvísi.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir í áramótaávarpi sínu, sem flutt var í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Vísaði hún til rannsókna sem sýndu að ungt fólk þjáist í auknum mæli af kvíða og depurð, og sagði hún ungt fólk jafnan nefna heim samfélagsmiðla sem eina af ástæðum þess. Ungt fólk sé í beinni útsendingu á miðlunum, en sjálf væri hún af þeirri kynslóð að hafa eingöngu þekkt internetið af afspurn á unglingsárum.

„Þau flissa þegar ég segi þeim að heimasíminn hafi hringt eftir fyrsta skólaballið, pabbi hafi svarað og sagt unga manninum í símanum að tala hærra og skýrar.“ 

Mögnuð réttindabarátta

Katrín kom víða við í ávarpinu. Nefndi hún meðal annars að magnað hefði verið að fylgjast með yfirferð Hrafnhildar Gunnarsdóttur á réttindabaráttu hinsegin fólks í sjónvarpsþáttunum Svona fólk á RÚV. Hrífandi væri að sjá fólk sem áður barðist fyrir réttindum í kjallaraherbergi Samtakanna 78, nánast í felum fyrir samfélagi sem viðurkenndi það ekki, rísa upp og fara út á götur með fána.

„Í þessum þáttum var rakin saga erfiðleika og hindrana, en líka sigra. Öðruvísi Íslandssaga um hvernig einsleitt samfélag lærði hægt og bítandi að fagna fjölbreytileikanum. Eflaust fannst sumum á sínum tíma þessi barátta ekki skipta aðra máli en þau sem koma fram í þáttunum og eins fannst eflaust einhverjum léttvægt þegar Ísland varð meðal fyrstu ríkja heims og á undan flestum stórveldum til að endurskilgreina hjónabandið. En öll mannréttindi reynast þegar betur er að gáð ekki varða einn eða fáa hópa heldur samfélagið allt. Einmitt þess vegna var ánægjulegt að sjá í ár tiltölulega breiðu samstöðu á Alþingi um lög um kynrænt sjálfræði, eitt skref fram á við í að tryggja réttindi okkar allra til að vera við sjálf. Við erum ein þjóð þótt ólík séum innbyrðis og öll eigum við að eiga okkar stað í samfélaginu,“ sagði Katrín.

Krafan um aðgerðir háværari

Katrín gerði samninga á vinnumarkaði einnig að umtalsefni sínu. Sagði hún ánægjulegt að verkalýðshreyfing og atvinnurekendur hefðu komið sér saman um nýja nálgun í kjarasamningum með undirritun lífskjarasamninga í apríl. Samið hefði verið um hófstilltar launahækkanir ásamt tryggingu fyrir því að launafólk öðlist réttláta hlutdeild í mögulegum hagvexti, hinn svokallaða hagvaxtarauka.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín sagði kröfuna um aðgerðir gegn loftslagsvánni hafa orðið háværari í ári. Neyð hafi skapast víða um heim vegna veðurfarsöfga, hvort heldur hitabylgna, þurrka, flóða eða gróðurelda. „Þetta eru alvarleg mál sem ógna tilveru okkar og möguleikum komandi kynslóða. En við getum tekist á við þetta og hér á Íslandi bæði getum við og eigum að leggja okkar lóð á vogarskálar,“ sagði forsætisráðherra.

Auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Forsætisráðherra sagði að það væri „löngu orðið tímabært“ að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem festi í sessi með formlegum hætti þann rétt sem þjóðin hefði á auðlindum sínum.

Hún sagði einnig að skýrari kröfur um gagnsæi og upplýsingagjöf yrðu gerðar til þeirra fyrirtækja sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og að sú krafa væri „ófrávíkjanleg“ að farið yrði að reglum í hvívetna, bæði hér heima og erlendis.

„Heiðarlegir viðskiptahættir munu þegar upp er staðið skila atvinnulífinu og samfélaginu bestum lífskjörum til langs tíma og eiga að vera sameiginlegt markmið okkar allra,“ sagði Katrín.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert