Eldur kom upp í tveimur bílum eftir árekstur á Korpúlfsstaðavegi skömmu fyrir kl. 8 í morgun. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kom á staðinn og er búið að ráða niðurlögum eldsins. Ökumennina sakaði ekki.
Ingvar Guðmundsson, sem tók meðfylgjandi myndir, segir í samtali við mbl.is að ökumennirnir hafi verið búnir að forða sér frá bílunum þegar hann kom á staðinn.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu kom eldur upp í öðrum bílnum við áreksturinn og barst svo í hinn. Einn var í hvorum bíl og báðir sluppu óslasaðir frá árekstrinum.
Búast má við því að Korpúlfsstaðavegi verði lokað í einhvern tíma á meðan að unnið er að því að fjarlægja bílana af staðnum.