Helga Jónsdóttir hefur verið sett ríkissáttasemjari á meðan unnið er úr umsóknum um embættið. Helga hefur þegar tekið til starfa, að því er fram kemur í tilkynningu frá embætti ríkissáttasemjara.
Umsóknarfrestur um stöðuna rann út 20. desember en listi yfir umsækjendur hefur ekki verið birtur en til stendur að birta hann fljótlega. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mun skipa í embættið til fimm ára. Umsóknir verða metnar af sérstakri ráðgefandi hæfnisnefnd sem ráðherra skipar.
Fjöldi umsækjenda hefur ekki verið gefinn upp en Gylfi Arnbjörnsson, fyrrverandi forseti ASÍ, er meðal umsækjenda.
Helga hefur unnið fyrir embætti ríkissáttasemjara en hún er ein tólf aðstoðarsáttasemjara sem Bryndís Hlöðversdóttir, sem sagði starfi sínu lausu í haust til að taka við starfi ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu, tilnefndi Helgu í janúar í fyrra til að aðstoða sig við lausn umfangsmikilla kjaradeilna.
Í fyrra gegndi Helga starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur um tíma þegar forstjóri fyrirtækisins steig til hliðar á meðan úttekt var gerð á vinnustaðamenningu og málefnum nokkurra starfsmanna fyrirtækisins.