„Hélt fyrst að þetta væri selur“

Björgunarsveitarmenn óðu um eins og hálfs metra djúpan sjóinn til …
Björgunarsveitarmenn óðu um eins og hálfs metra djúpan sjóinn til að komast að hundinum. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Benediktsdóttir, íbúi á Höfn í Hornafirði, var í morgungöngu í Óslandi er hún kom auga á hund í sjálfheldu á flæðiskeri. „Ég hélt fyrst að þetta væri selur,“ segir Kristín, svo rámur var hundurinn orðinn af góli. Hún hringdi á lögregluna, og skömmu síðar voru björgunarsveitarmenn sendir á vettvang.

Friðrik Jónas Friðriksson, liðsmaður björgunarsveitarinnar í Hornafirði, eða Hvolpasveitarinnar eins og hann kýs að nefna hana í tilefni dagsins, segir að hundurinn hafi sennilega verið fastur á syllunni í 3-4 tíma, eða frá því flæddi að. Þurftu björgunarsveitarmenn að vaða um fimm metra í eins og hálfs metra djúpum sjónum til að komast að hundinum.

„En hann var ekkert blíður. Hann var frekar óhress með þennan hóp sem ætlaði að hjálpa honum,“ segir Jónas, en bætir þó við að hundurinn hafi allur blíðkast eftir að hann komst inn í hlýjuna á lögreglustöðinni.

„Um leið og hann fékk kaffi og kleinur fór hann að sýna sitt rétta andlit. Hann er greinilega mikið innan um fólk,“ segir Jónas. Hann segir að stuttu síðar hafi þeim tekist að hafa uppi á eigandanum, með hjálp fésbókar. Kom þá í ljós að eigendur hundsins eru ekki heima, en hundurinn var í pössun og hafði sá ekki tekið eftir að hundurinn væri horfinn.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert