Ísland er í 18. sæti á árlegum lista kanadísku rannsóknarstofnunarinnar Fraser Institute yfir frelsi landa. Listinn, frelsisvísitalan svokallaða, raðar 162 löndum í röð eftir því hversu frjálst landið er, en sæti hvers lands byggist á tveimur þáttum – frelsi einstaklingsins og efnahagslegu frelsi.
Í efsta sæti listans situr Nýja-Sjáland með 8,88 í einkunn, þar á eftir kemur Sviss með 8,82 og í þriðja sæti situr sjálfstjórnarhéraðið Hong Kong með 8,81 í einkunn. Næst koma Kanada og Ástralía. Sem fyrr segir situr Ísland í átjánda sæti listans með 8,41 í einkunn.
Í jöfnu Fraser Institute um hversu frjálst land er eru fjölmargar breytur en sem dæmi byggist þátturinn um frelsi einstaklingsins m.a. á því hvort fólki er frjálst að ferðast innanlands og utanlands, öryggi kvenna og frelsi til að skilja við maka. Í efnahagslega frelsinu er m.a. tekið inn í matið hversu frjálst flæði fjármagns og fólks er, hversu mikið af eignum ríkið á og hversu sjálfstæðir dómstólar eru, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.