Kalt heimskautaloft flæðir yfir landið

Skokkari við Nauthólsvík í Reykjavík í desember. Veður fer kólnandi …
Skokkari við Nauthólsvík í Reykjavík í desember. Veður fer kólnandi í dag og á morgun, en svo hlýnar á ný með suðaustanstormi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í dag flæðir kalt heimskautaloft yfir landið og það frystir. Éljabakkar sækja að landinu úr norðri og vestri og geta akstursskilyrði orðið erfið í éljunum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands núna í morgun. Þar segir einnig að Suðausturland og Austfirðir sleppi að mestu við úrkomuna í dag, en él verður einkum norðan- og vestanlands. Vindur verður á bilinu 10-18 m/s með morgninum og frost 3-10 gráður síðdegis.

Á morgun er svo útlit fyrir hvassa norðvestanátt með snjókomu á Norður- og Austurlandi, en þar gæti hríðin orðið nokkuð dimm þegar verst lætur. Sunnan heiða er útlit fyrir að morgundagurinn verði bjartur, en kaldur. Ekki er útlit fyrir að það verði hvasst á vestasta hluta landsins, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu.

Suðaustan stormur á laugardag

„Á föstudagskvöld hefur veðrið gengið niður og það herðir á frostinu, þá gætu tveggja stafa frosttölur verið að mælast í öllum landshlutum. En þau rólegheit standa ekki lengi því á laugardag er útlit fyrir að gangi í suðaustanstorm með hlýnandi veðri. Úrkoman sem fylgir verður líklega snjókoma til að byrja með, en færir sig síðan yfir í slyddu eða rigningu.

Það gengur semsagt á ýmsu næstu daga og veðrið getur haft áhrif á ferðalög, sér í lagi ef förinni er heitið milli landshluta,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Norðvestan 15-25 m/s, en hægari vindur vestanlands. Snjókoma eða él á Norður- og Austurlandi, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 1 til 10 stig. Lægir og rofar til um kvöldið.

Á laugardag:
Gengur suðaustan í 18-25 með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hlýnandi veður. Snýst í suðvestan 10-18 seinnipartinn með skúrum eða slydduéljum, en léttir til norðaustanlands.

Á sunnudag:
Suðvestan 13-18 og skúrir eða él, en bjartviðri austanlands. Hiti um eða yfir frostmarki. Lægir um kvöldið.

Á mánudag:
Breytileg og síðar norðvestlæg átt, hvass vindur á köflum. Slydda eða rigning og síðar snjókoma á austanverðu landinu, en él vestantil. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast með austurströndinni.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Líkur á suðvestanátt með éljum, en úrkomulaust norðaustantil á landinu. Kólnandi veður.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert