Fulltrúar lögreglu og björgunarsveita athuga í dag aðstæður í Hnappadal með tilliti til þess hvenær rétt sé að hefja að nýju leit að manni sem saknað hefur verið undanfarna daga.
Meðal annars verður spáð í veður, sem skiptir miklu máli við skipulagningu leitar. Einar Þór Strand, formaður svæðisstjórnar björgunarsveitanna, sagði í gær að útlit væri fyrir bjart veður á morgun, föstudag, en eftir væri að kanna hvort hægt yrði að manna leit.
Maðurinn er Lithái, hátt á sextugsaldri, búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Eftirgrennslan og leit hófst þegar bóndi í Hnappadal veitti því eftirtekt að bíll hafði staðið við Heydalsveg í tvo eða þrjá daga.
Maðurinn á ekki fjölskyldu hér á landi og er ekkert vitað um áform hans. Hann hefur oft farið einn í stuttar fjallgöngur. Í Morgunblaðinu í dag segir að talið sé að maðurinn hafi ekið af stað heiman frá sér að morgni laugardagsins 28. desember.