Magn svifryks í andrúmslofti á mælistöð við Grensásveg í Reykjavík fyrstu klukkustund nýársdags í ár var um þrefalt minna í ár en í fyrra.
Elfa Björk Ellertsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir að ástæðan fyrir þessu sé að öllum líkindum veðrið sem var á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld og nýársdag. Úrkoma var til staðar en líklegt er að mengunin hafi blandast henni og því farið niður í jarðveginn í stað þess að halda sig í andrúmsloftinu. Ómögulegt er að segja hvort minni mengun megi rekja til þess að færri hafi skotið upp flugeldum, að sögn Elfu.
„Styrkur svifryks fyrstu klukkustundina árið 2020 var 317 míkrógrömm á rúmmetra í mælistöðinni við Grensásveg í Reykjavík. Til samanburðar var fyrsta klukkustundin árið 2019 985 míkrógrömm á rúmmetra og 2018 var hann 1.457 míkrógrömm á rúmmetra. Á síðasta áratug var hann hæstur árið 2010 eða 1.575 míkrógrömm,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Magn svifryks í andrúmslofti fór vel yfir heilsuverndarmörk á flestum mælistöðvum fyrstu klukkustund nýársdags en minnkaði svo hratt og var einungis yfir heilsuverndarmörkum aðra klukkustund nýársdags í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Við Grensásveg fór styrkur svifryks 14 sinnum yfir sólarhringheilsuverndarmörk árið 2019 miðað við gögn en styrkur má fara 35 sinnum yfir mörk samkvæmt reglugerð þar um.