Árni Benediktsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, lést 28. desember, á 91. aldursári. Hann var fæddur á Hofteigi á Jökuldal 30. desember 1928, sonur Benedikts Gíslasonar, bónda og rithöfundar, og Geirþrúðar Bjarnadóttur, og ólst þar upp fram undir fermingu.
Árni lauk verslunarprófi frá Samvinnuskólanum 1949 sem þá var enn til húsa í aðalstöðvum Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) við Sölvhólsgötuna í Reykjavík. Hann starfaði við sjávarútveg í hálfan fimmta áratug, lengst af sem framkvæmdastjóri í fyrirtækjum tengdum Sambandi íslenskra samvinnufélaga. Hann starfaði fyrst hjá Landsmiðjunni, Hraðfrystistöðinni hf. á Sauðárkróki og Meitlinum hf. í Þorlákshöfn, en var síðan framkvæmdastjóri Kirkjusands hf. 1963-1977 og Framleiðni sf. 1977-1985.
Árni var formaður Félags Sambandsfiskframleiðenda 1968-1985 og síðan framkvæmdastóri félagsins í nokkur ár. Árni var um skeið varaformaður stjórnar Fiskveiðasjóðs, í stjórn Fiskifélags Íslands, Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Útgerðarfélags samvinnumanna. Hann flutti erindi og fyrirlestra og skrifaði fjölda blaðagreina um sjávarútvegs- og efnahagsmál, en einnig um íslensk fræði.
Á níræðisafmælinu fyrir ári sagði Árni í samtali við Morgunblaðið að tími sinn færi að mestu í lestur og skriftir. „Ég les mikið um erlend stjórnmál og íslenskar ævisögur. Svo skrifa ég svona eitt og annað sem flest fer í ruslakörfuna. En það gerir ekkert til. Ég hef gaman af þessu og það er gott að skrifa á tölvuna.“
Eftirlifandi eiginkona Árna er Björg Dúfa Bogadóttir, f. 1929. Börn þeirra eru Margrét, f. 1952, Björg, f. 1957 og Benedikt, f. 1966, auk barnabarna og barnabarnabarna.