Björgunarsveitarmenn leituðu að Andris Kalvans, á Snæfellsnesi í dag í 18 gráðu frosti en ágætis veðri. Ekkert nýtt kom í ljós við leitina í dag, að sögn Ægis Þórs Þórssonar sem stýrir leitinni.
Talið er að Andris hafi ekið heiman frá sér 28. desember og ætlað sér í fjallgöngu. Síðan hefur ekkert spurst til hans. Bíll Andris fannst í vegkanti á milli bæjanna Heggstaða og Mýrdals á Snæfellsnesi, í bílnum fannst fjallgöngubúnaður.
Leit að Andris er nú að ljúka og leit að Rimu Grunskyté Feliksasdóttur sömuleiðis. Hennar hefur verið saknað frá 20. desember. Talið er að hún hafi fallið í sjóinn við Dyrhólaey en Þar fannst bíll hennar.
Rimu og Andris verður ekki leitað á morgun þar sem veðurspá er mjög slæm, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Ægir segir að enn eigi eftir að ákveða hvort Andris verði leitað á sunnudag.
Mikilvægt er að tryggja öryggi björgunarsveitarfólks og því skipti máli að hlé sé gert á leit á meðan vont veður gengur yfir landið, að sögn Davíðs.
Leitarskilyrði á báðum stöðum eru frekar slæm, á Vesturlandi vegna snjóflóðahættu og á Suðurlandi vegna kletta við ströndina sem leitað er á.
Aðspurður segir Davíð að björgunarsveitirnar hafi ekki gefið upp vonina um að finna bæði Rimu og Andris.