Björgunarsveitirnar gefa ekki upp vonina

Í dag voru skilyrði ágæt en þau verða það aða …
Í dag voru skilyrði ágæt en þau verða það aða öllum líkindum ekki um helgina. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Björgunarsveitarmenn leituðu að Andris Kalvans, á Snæfellsnesi í dag í 18 gráðu frosti en ágætis veðri. Ekkert nýtt kom í ljós við leitina í dag, að sögn Ægis Þórs Þórssonar sem stýrir leitinni.

Talið er að Andris hafi ekið heim­an frá sér 28. des­em­ber og ætlað sér í fjall­göngu. Síðan hef­ur ekkert spurst til hans. Bíll Andris fannst í vegkanti á milli bæjanna Heggstaða og Mýrdals á Snæfellsnesi, í bílnum fannst fjallgöngubúnaður.

Leit að Andris er nú að ljúka og leit að Rimu Grun­skyté Feliks­as­dótt­ur sömuleiðis. Henn­ar hef­ur verið saknað frá 20. des­em­ber. Talið er að hún hafi fallið í sjó­inn við Dyr­hóla­ey en Þar fannst bíll henn­ar.

Snjóflóðahætta og klettar setja strik í reikninginn

Rimu og Andris verður ekki leitað á morgun þar sem veðurspá er mjög slæm, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Ægir segir að enn eigi eftir að ákveða hvort Andris verði leitað á sunnudag.

Mikilvægt er að tryggja öryggi björgunarsveitarfólks og því skipti máli að hlé sé gert á leit á meðan vont veður gengur yfir landið, að sögn Davíðs.

Leitarskilyrði á báðum stöðum eru frekar slæm, á Vesturlandi vegna snjóflóðahættu og á Suðurlandi vegna kletta við ströndina sem leitað er á.

Aðspurður segir Davíð að björgunarsveitirnar hafi ekki gefið upp vonina um að finna bæði Rimu og Andris. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert