John Snorri lagður af stað til Pakistan

John Snorri á Esjunni í síðasta mánuði.
John Snorri á Esjunni í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

John Snorri Sigurjónsson fjallagarpur er lagður af stað til Pakistan, þar sem hann hyggst klífa K2, næsthæsta fjall heims, og verða um leið fyrsti maðurinn sem kemst á topp þess að vetri til. Þegar blaðamaður náði tali af honum var hann lentur í Manchester á Englandi, en þaðan á hann beint flug til Islamabad, höfuðborgar Pakistan.

Í Islamabad hittir hann fyrir fjallamennina þrjá sem verða honum samferða upp K2. Á mánudag flýgur hópurinn til Gilgit, en þaðan fer hann á jeppum til fjallaþorpsins Skardu. „Það má segja að Skardu sé síðasti menningarbærinn áður en komið er að þorpinu. Þar er hægt að fara í verslanir og svona,“ segir John Snorri.

Tekur þrjá mánuði

John Snorri er einn 460 manna sem hafa náð að klífa K2, en fjallið var fyrst klifið árið 1954. Þótt margir hafi reynt hefur engum hins vegar tekist að klífa það að vetrarlagi. Því hyggst John Snorri breyta.

Hann segir ferðaáætlunina nú þá sömu og síðast, eini munurinn sé veðrið. „Það er rosalega kalt og erfitt að athafna sig í þessu veðri,“ segir hann. Eftir að hópurinn verður búinn að koma búnaði fyrir í búðum segir John viðbúið að hann þurfi að bíða eftir að „veðurgluggi opnist“. Allt í allt tekur ferðalagið um þrjá mánuði, segir hann.

John Snorri fer vel búinn.
John Snorri fer vel búinn. Ljósmynd/John Snorri

Orðinn heill heilsu

Í desember hugðist John Snorri klífa Esjuna fjórtán sinnum viðstöðulaust til að undirbúa sig undir ferðina á K2. Ekki fór þó betur en svo að hann neyddist til að hætta ferðinni eftir átta ferðir af fjórtán vegna hnémeiðsla.

Spurður út í meiðslin segir John Snorri að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hann hafi fundið til í hnjánum. „Þetta er líklega samblanda af miklu álagi og því að ég datt í fyrstu ferðinni,“ segir John.

Bólga hafi myndast inni í hnénu sem hafi gert honum erfitt fyrir í Esjugöngunni. John Snorri segir að síðan þá hafi hann fengið sprautur í hnéð og nudd og meira til. „Núna finn ég eiginlega ekkert fyrir þessu og er mjög vel stemmdur“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert