Læknir kvíðir vetrinum á bráðamóttökunni

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi inniliggjandi sjúklinga á bráðamóttöku Landspítalans hefur þrefaldast á tveimur árum, að því er fram kemur í fyrsta tölublaði Læknablaðsins þetta árið. Deildin er sprungin og gæti ekki með góðu móti tekið á móti sjúklingum ef upp kæmi hópslys.

Í viðtali í blaðinu lýsir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum, yfir miklum áhyggjum af stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans sem hann segir ómögulega. Mikill þrýstingur er á að útskrifa sjúklinga og segir Már að ef þróunin haldi áfram muni bráðamóttakan ekki hafa tök á að taka við öllum sem þurfa á aðstoð hennar að halda í vor þegar inflúensa stendur sem hæst. 

„Stórslys í aðsigi“

„Ég hef miklar áhyggjur af vetrinum. Það er stórslys í aðsigi,“ segir Már sem telur að ábyrgð á ástandinu sé öll sett á herðar starfsfólks spítalans. 

„Undir þessum kringumstæðum skapast ófaglegar aðstæður, heilbrigðisstarfsfólki verður á og sjúklingar gjalda fyrir það.“

Már segir að ástandið hafi versnað til muna á síðustu þremur árum og það sé nú ógnvekjandi, sérstaklega þegar litið er til þess að brátt fer af stað tímabil inflúensunnar. Fyrir þá sem starfa á bráðamóttökunni er ástandið augljóslega galið, að mati Más. Legurými eru á göngunum, fólk er veikt og berskjaldað og sýkingavarnir brostnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert