Mestu afföll á hrossum í áratugi

Afar óvenjulegt er að saman fari svo hart norðanáhlaup með …
Afar óvenjulegt er að saman fari svo hart norðanáhlaup með mikilli úrkomu og hitastigi við frostmark. Veðurskilyrðin leiddu til þess að slydda lagðist á hrossin og fraus þar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú liggur fyrir að ríflega 100 hross fórust í hamfaraveðrinu sem gekk yfir Norðurland vestra dagana 10. - 12. desember. Þetta eru mestu afföll á hrossum í áratugi og svarar til um 0,5% þeirra 20.000 hrossa sem ætla má að hafi verið á útigangi á þessu landsvæði.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. 

Fram kemur, að hross hafi farist á 46 bæjum, þar af 29 í Austur-Húnavatnssýslu (61 hross), 9 í Vestur-Húnavatnssýslu (20 hross) og á 8 bæjum í Skagafirði (22 hross). Oftast var um að ræða eitt til fjögur hross á hverjum bæ, sem gerir að meðaltali 2 hross á bæ.

„Dreifingin endurspeglar að afföllin verða ekki rakin til óviðunandi aðbúnaðar eða undirbúnings á einstaka bæjum en ljóst má vera að veðrið kom mishart niður á svæðum innan landshlutans. Hross á öllum aldri fórust í óverðinu; 29 folöld, 34 trippi og 30 hryssur, en einnig drápust 15 hestar, flestir fullorðnir. Hryssurnar voru sömuleiðis í flestum tilfellum í eldri kantinum og því má segja að elstu og yngstu aldurshóparnir hafi orðið verst úti í óveðrinu,“ segir MAST.

Þá segir, að algengast hafi verið að hross hefði hrakið undan veðri í skurði, girðingar eða aðrar hættur en einnig fennti hross sem stóðu í skjóli, þ.m.t. hross sem rekin höfðu verið sérstaklega í skjól og gefið þar. Dæmi hafi verið um tveggja metra snjódýpt niður á hræin, en gríðarlegir skaflar mynduðust hvar sem skjól var að finna. Almennt séð var harðara á hrossum á jörðum nærri ströndinni á meðan hross sem stóðu hærra í landinu sluppu mun betur, líklega vegna þess að þar var kaldara og ekki hlóðst á þau ís með sama hætti.

„Afar óvenjulegt er að saman fari svo hart norðanáhlaup með mikilli úrkomu og hitastigi við frostmark. Veðurskilyrðin leiddu til þess að slydda lagðist á hrossin og fraus þar. Hrossin urðu klömbruð og þung sem gerði þeim erfiðara fyrir að standa af sér þá langvarandi stórhríð sem á eftir fylgdi þar sem veðurhæðin náði styrk fellibyls á köflum. Skjól kom ekki að gagni þar sem aðstæður voru verstar og átti það jafnt við um manngerða skjólveggi og náttúrulegt skjól. Hross voru alla jafna í góðu standi fyrir áhlaupið enda hafði haustið verið hagfellt hrossum á útigangi,“ segir MAST.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka