Einstaklega fögur glitský mynduðust á Suðurlandi í morgun og var himinninn í öllum regnbogans litum í ljósaskiptunum. Jónas Erlendsson, fréttaritari mbl.is, náði þessari mögnuðu mynd sem sést hér að ofan, austan við Vík í Mýrdal á milli klukkan níu og tíu í morgun. Jónas segist hafa séð glitský áður á þessu svæði en ekki svona rosalega sterka liti.
Þá barst önnur mynd sem tekin var af glitskýjum yfir Hornafirði, sem ekki voru síður falleg.
Samkvæmt upplýsingum af vedur.is, vef Veðurstofu Íslands, myndast glitský helst um miðjan vetur, við sólaruppkomu eða sólarlag. Þau myndast þegar óvenjukalt er í heiðhvolfinu, í 15 til 30 metra hæð. Skýin eru úr ískristöllum eða samböndum ískristalla og saltpéturssýru-hýdrötum. Síðarnefndu skýin eru þó ekki bara falleg því þau geta valdið ósoneyðingu.
„Kristallarnir í skýjunum beygja sólarljósið, en mismikið eftir bylgjulengd þess. Þannig beygir blátt ljós meira en rautt. Rauða ljósið kemur því til okkar undir öðru horni en það bláa, þannig að við sjáum það koma frá öðrum hluta glitskýsins. Litaröðin frá jaðri inn til miðju skýsins er stundum eins og vísuorðin: gulur, rauður, grænn og blár en oft er skýið einnig hvítt í miðju. Litirnir eru líka háðir stærðardreifingu agna í skýjunum, þannig að oft má sjá rauða, gula og græna flekki í bland,ׅ“ segir um skýin á vef Veðurstofunnar.