Rúta með 17 erlenda ferðamenn valt skammt frá Laugarvatni

Sjúkrabílar frá Selfossi og höfuðborgarsvæðinu eru á leiðinni á vettvang.
Sjúkrabílar frá Selfossi og höfuðborgarsvæðinu eru á leiðinni á vettvang. mbl.is/Hjörtur

Rúta með 17 erlenda ferðamenn um borð valt skammt frá Laugarvatni á tólfta tímanum í kvöld. Vísir greindi fyrst frá. 

Um litla rútu er að ræða og fór hún út af veginum miðja vegu milli þjónustumiðstöðvarinnar á Laugarvatni og Lyngdalsheiðar. 

Brunavarnir Árnessýslu sendu dælubíl auk sjúkrabíla á vettvang og sömuleiðis var óskað eftir aðstoð sjúkraflutningamanna í Reykjavík og eru þrír sjúkrabílar á leið á slysstað frá höfuðborgarsvæðinu.

Fyrstu viðbragðsaðilar eru komnir á staðinn og að sögn Hauks Grönli, varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, eru meiðsl farþeganna talin minni háttar. 

Rúta var einnig send á vettvang sem mun flytja farþegana annað, en Haukur telur líklegt að nokkrir farþeganna þurfi aðhlynningu á sjúkrahúsi. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert