Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir útlit fyrir áframhaldandi slaka á hótelmarkaði. Því sé ekki útlit fyrir að byggja þurfi fleiri herbergi til að anna eftirspurn.
„Við vitum um hótelverkefni sem var frestað í fyrra. Það getur aftur þýtt að fleiri verkefni frestast þar til slakinn fer að hverfa.“
Tilefnið er greining Landsbankans sem leiðir í ljós að verð á gistingu mælt í evrum í Reykjavík hefur lækkað 16 mánuði í röð. Meðalverðið í fyrra var 140,1 evra en 160 evrur árið 2018. Að auki hefur rekstrarkostnaðurinn aukist.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Gústaf Steingrímsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, á að undanfarin ár hafi laun á Íslandi hækkað meira en í flestum löndum.