Fleiri munu verða án vinnu

Dregið hefur úr umsvifum í byggingariðnaði að undanförnu.
Dregið hefur úr umsvifum í byggingariðnaði að undanförnu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálstofnun (VMST), áætlar að allt að 9.400 manns verði á atvinnuleysisskrá í ár þegar mest lætur. Til samanburðar eru nú um 7.600 manns á atvinnuleysisskrá.

Spár um hagvöxt á þessu ári hafa verið endurmetnar til lækkunar. Nú síðast spáði Arion banki 0,6% hag vexti í ár. Samkvæmt VMST munu þá aðeins verða til 400-500 störf á þessu ári en það er langt undir náttúrulegri fjölgun á vinnumarkaði.

Af þeim sökum er útlit fyrir að fólki á atvinnuleysisskrá muni fjölga. Með því yrði þetta annað árið í röð þar sem atvinnuleysið eykst.

Vegna minna vinnuframboðs mun samkeppni um störf harðna. Nýlegt dæmi er að 80 manns sóttu um starf kynningarfulltrúa hjá fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir stefna í 1% hagvöxt í ár. Niðurstaðan muni að hluta ráðast af viðbrögðum stjórnvalda.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Karl minna framboð af störfum jafnan hafa leitt til brottflutnings fólks frá landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka