Óvissa ríkir um mælingar á loðnustofninum í vetur og þar með möguleika á útgáfu veiðiheimilda.
Ástæðan er sú að Hafrannsóknastofnun hefur aðeins eitt rannsóknarskip til umráða í verkefnið og hefur ekki verið tilbúin að semja við útgerðarmenn uppsjávarskipa um að koma til hjálpar. Það gæti kostað stjórnvöld á annað hundrað milljónir, ef greitt yrði fyrir þjónustuna.
Stefnt er að því að rannsóknarskipið Árni Friðriksson fari til leitar og mælinga á loðnu eftir rúma viku. Útgerðir loðnuskipa hafa á undanförnum árum lagt til skip til að aðstoða við leitina. „Það stefndi í að þeir kæmu líka núna. Það virðist stranda á því að þeir vilja fá leitina borgaða,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.