Veðrið nær hámarki um hádegisbil

Viðvaranir taka gildi á öllum landssvæðum í dag.
Viðvaranir taka gildi á öllum landssvæðum í dag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Veðrið er að versna mjög núna næstu klukkutímana fram að hádegi,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Vetrarveður er á landinu öllu í dag, veður sem Þorsteinn segir í raun hefðbundið janúarveður. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir Suðurland, Faxaflóa, miðhálendið og Breiðafjörð en gul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið. 

Síðar í dag taka gular viðvaranir gildi annars staðar á landinu. Þorsteinn segir að veðrið gangi yfir síðdegis á flestum landssvæðum en þá snýst í rigningu. 

„Það byrjar með snjókomu og skafrenningi og sums staðar þæfingsfærð og hálku. Síðan hlýnar og fer að rigna um þrjú- eða fjögurleytið.“

Hvessir á Norður- og Austurlandi

Hviðurnar við Blikadalsá eru farnar að ná 30 m/s, bálhvasst er undir Eyjafjöllum og býsna hvasst verður við Hafnarfjallið í dag. Á Norður- og Austurlandi mun hvessa duglega síðdegis, þar verða sterkar vindhviður, skafrenningur og snjókoma alveg fram á kvöld en þá rofar til og snýst í suðvestanátt.

Þorsteinn segir að veður muni halda áfram að vera órólegt næstu daga. 

„Vaxandi suðaustanáttir, hvassviðri, stormur, snjókoma, slydda rigning og svo snýst í suðvestanátt með éljagangi. Þetta er sagan endalausa núna um og eftir helgina. Það verður mjög órólegt veður og í raun týpískt janúarveður.“

Þorsteinn mælir með því að landsmenn fylgist með veðurspám og færð á vegum. Einnig er brýnt að passa upp á að stíflur myndist ekki við niðurföll svo vatn komist niður þau þegar fer að rigna. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert