Mikil og vaxandi óánægja er meðal félagsmanna innan stéttarfélaga á almenna markaðinum sem enn eiga ósamið við ríki og sveitarfélögin en samningar þeirra hafa verið lausir í meira en níu mánuði.
„Það er alveg ótrúlegt að það skuli ekkert hreyfast hjá sveitarfélögunum og ríkinu. Það er kominn mikill kurr í fólk, sem kallar orðið eftir því að stéttarfélögin fari að stíga fram og vill bara að farið verði í aðgerðir. Samningar hafa verið lausir frá því í vor en á sama tíma og allt er að hækka þá standa launin eftir. Sveitarfélögin eru t.d. að hækka gjaldskrár og annað en geta ekki lokið samningum við verkalýðshreyfinguna. Þetta leggst af töluverðum þunga á ákveðna hópa sem hafa ekki fengið neinar leiðréttingar,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar í Morgunblaðinu í dag.
Félagsmenn hans sem eru án samninga við sveitarfélög eru aðallega konur í umönnunar- og aðhlynningarstörfum og hafa margar þeirra ekki fengið neina launahækkun allt frá 1. júlí árið 2018.