„Það búið að kalla verktakann til og vinnueftirlitið á staðinn og fjöldi fólks hefur komið að gera ráðstafanir með það að taka þennan krana. Þetta er náttúrulega bara óhapp,“ segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Lögreglustöðinni í Hafnarfirði barst tilkynning klukkan 12.02 í dag þess efnis að járnverk í byggingarkrana hefði fallið á einbýlishús við Hraungötu í Urriðaholti.
„Járnverkið á krananum lendir þarna ofan á húsi og svo rennur kraninn á bíl þar fyrir utan,“ segir Skúli.
Þak hússins skemmdist og bíllinn sömuleiðis. Spurður hvort byggingarkranar séu hættulegir í veðri sem þessu segir Skúli:
„Menn gera yfirleitt ráðstafanir með þessa krana, setja kranana upp í vind eða fella þá eða eitthvað. Ég kann ekki skýringar á því hvernig það kom til að þessi féll. Það hefur ekki komið fram en það er náttúrulega viðbúið að svona gerist og menn eiga að reyna að koma í veg fyrir það.“
Mikið óveður hefur geisað á landinu öllu í dag og náði það hámarki um hádegisbilið. Á landinu eru ýmist í gildi appelsínugular eða gular viðvaranir, gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu.