Fleiri lægðir á leiðinni til landsins

Fleiri lægðir eru væntanlegar til landsins á næstu dögum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Lægð á Grænlandssundi á leið norðaustur færir okkur strekkingssuðvestanátt í dag með slydduéljum, en þurrt verður norðaustantil á landinu. Næsta lægð nálgast síðan í kvöld og snýr vindur sér til austurs með slyddu eða rigningu.

„Seinni lægðin gengur yfir landið á morgun og mun vindur blása úr ýmsum áttum, norðlæg átt vestantil á landinu í nótt en suðlægari um landið vestanvert. Síðdegis á morgun er lægðin komin norður fyrir landið og vindur orðinn vestlægari og gengur á með éljum, en þurrt og slær í storm á austanverðu landinu. Seint annað kvöld nálgast svo þriðja lægðin og fer vindur aftur að snúa sér,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings og áfram:

„Þegar vindur blæs úr mörgum mismunandi áttum á skömmu tímabili, og úrkoma er ýmist á föstu eða fljótandi formi eða einhvers staðar þar á milli, getur verið erfitt að lýsa veðri í stuttu máli. Blessunarlega getur íslenskan hjálpað okkur: Umhleypingar næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert