Ríkið hefur komist að samkomulagi um 20 milljóna króna bótagreiðslu til Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanns, en kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hefðu verið brotin þegar gengið var framhjá henni við skipan þjóðagarðsvarðar árið 2018. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þingvallanefnd auglýsti starf þjóðgarðsvarðar laust til umsóknar haustið 2018. Tveir umsækjendur þóttu hæfastir til að gegna embættinu, Einar Sæmundsen, landfræðingur og landslagsarkitekt, og Ólína Þorvarðardóttir, doktor í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum.
Sjö þingmenn sitja í Þingvallanefnd, og greiddu stjórnarliðar, sem eru fjórir, allir atkvæði með Einari, en stjórnarandstöðuþingmennirnir þrír kusu Ólínu. Var Einar því skipaður þjóðgarðsvörður í október 2018.
Því undi Ólína ekki og kærði skipunina til kærunefndar jafnréttismála. Gagnrýndi hún ráðninguna opinberlega og sagði að fram hjá sér hafi verið gengið vegna aldurs og kyns þrátt fyrir að hún hefði meiri menntun og meiri og víðtækari stjórnunarreynslu en sá sem ráðinn var.
Þá vakti hún athygli á því að einn nefndarmanna, Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefði aldrei hlýtt á framsögur umsækjenda heldur mætt að þeim loknum og verið búinn að gera upp hug sinn.
Komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu í apríl í fyrra að Þingvallanefnd hefði brotið jafnréttislög með ráðningunni.