Prjóna poka fyrir móðurlaus pokadýr

Pokarnir geta hjálpað dýrunum sem þurfa að jafna sig hjá …
Pokarnir geta hjálpað dýrunum sem þurfa að jafna sig hjá dýraverndunarsamtökum áður en þau fara aftur út í náttúruna. Ljósmynd/Facebook/The Rescue Collective

Pétur Oddbergur Heimisson og Erin Jade Turner ætla sér að bregðast við ákalli ástralskra dýraverndunarsamtaka með því að prjóna poka fyrir pokadýr í Ástralíu sem hafa farið illa út úr gróðureldum, sérstaklega fyrir þau dýr sem eru móðurlaus.

Munu þau Pétur og Erin halda viðburð á Kex hosteli í Reykjavík næstkomandi miðvikudagskvöld þar sem prjónarnir verða teknir upp og prjónað af krafti fyrir pokadýr sem þurfa að jafna sig eftir átökin við gróðureldana.

Um hálfur milljarður dýra hefur týnt lífinu í skógareldum sem nú geisa í Ástralíu. Stór hluti þessara dýra eru pokadýr og eru mörg dæmi um það að pokadýr hafi dáið frá ungum afkvæmum sínum. 

Erin (t.v.) og Pétur (t.h.)
Erin (t.v.) og Pétur (t.h.) Samsett mynd/Aðsend/Sebastian Ryborg Storgaard

Hefur haldið prjónakvöld í heilt ár

„Ég er búin að halda prjónakvöld á Kex núna síðan í byrjun síðasta árs,“ segir Pétur. „Á föstudaginn spurði Erin, áströlsk vinkona mín sem er nýflutt til Íslands, hvort ég væri til í að halda prjónakvöld þar sem ég myndi kynna þetta.“

Þá hafði Pétur aldrei heyrt um pokana sem geta, að hans sögn hjálpað pokadýrum sem eru að berjast fyrir lífi sínu. Mörg dýranna finna skjól hjá dýraverndunarsamtökum sem sinna þeim þar til dýrin eru tilbúin í að fara aftur út í náttúruna. Pokarnir geta hjálpað mikið til meðan á endurhæfingu stendur.

Erin er á leið til Ástralíu 5. febrúar og ætlar þá að taka pokana með sér út og færa dýraverndunarsamtökum.

„Hugmyndin er sú að vinna eftir uppskrift. Þetta eru pokar sem er síðan settur bómull inn í. Þeir líkja eftir móðurkviði eða þessum pokum sem pokadýr eru í til að byrja með.“

„Fólki er ekki sama“

Pétur gerir ráð fyrir því að einhver ull verði í boði en svo er líka tilvalið að koma með afgangsgarn. Miðað er við að nota kambgarn og léttlopa í pokana. 

„500 milljónir dýra hafa dáið í Ástralíu út af þessum gróðureldum sem er náttúrulega skelfilegt. Viðburðurinn varð miklu stærri en ég bjóst við. Það sýnir hvað fólk er góðhjartað. Fólki er ekki sama,“ segir Pétur.

„Þótt þetta sé bara dropi í hafið þá getur þetta hjálpað einhverjum og það er falleg hugsun.“

Viðtökurnar hafa verið góðar að sögn Péturs og hefur fólk sem hefur ekki tök á að mæta á viðburðinn á Kex haft samband við hann og kannað hvort það geti samt tekið þátt. Það er möguleiki en þá þarf að koma pokunum í Gym og tonic salinn á Kex hostel einhvern tímann á milli 10:00 og 20:00 mánudaginn 3. febrúar svo Erin geti tekið þá með sér út. Einnig er hægt að senda Pétri póst á peturoddbergur (hjá) gmail.com vegna þessa.

Viðburðurinn hefst klukkan sjö næsta miðvikudagskvöld og stendur til klukkan ellefu.

Hér má sjá myndband sem tengist verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert