Sendur veikur heim af LSH og lést

Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi.
Bráðamóttaka Landspítalans í Fossvogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkja manns sem lést eftir ótímabæra útskrift af Landspítalanum í nóvember segist vonast til þess að stjórnendur heilbrigðiskerfisins læri af málinu, svo að eiginmaður hennar „hafi ekki dáið til einskis“. Rætt var við konuna, Bryndísi Skaftadóttur, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga Landspítala, að hann óttaðist „stórslys“ á spítalanum vegna stöðunnar á bráðamóttökunni og fjallaði um að hugsanlegt væri að rekja mætti andlát sjúklings til þess að hann hefði verið útskrifaður of snemma.

Sjúklingurinn sem hann ræddi um þar var Páll Heimir Pálsson, sex barna faðir og eiginmaður Bryndísar, sem lést 24. nóvember á heimili sínu eftir að hafa verið útskrifaður 21. nóvember.

Bryndís segir í viðtalinu við RÚV að hún hafi rætt við Má sjálfan skömmu eftir andlát eiginmanns síns og fengið þau svör hann hafi verið ranglega greindur og útskrifaður of snemma, en eiginmaður hennar var með krabbamein í lungum og lést heima hjá sér eftir að hafa varið tveimur dögum á bráðamóttöku. 

„Hann í rauninni biðst bara afsökunar, að hann hafi útskrifað hann of fljótt,“ segir Bryndís um samtal sitt við yfirlækninn.

Í ljós kom að Páll Heimir var með tvo stóra blóðtappa í lungunum, sem drógu hann til dauða.

Bryndís segir í viðtalinu við RÚV að „mjög mikið“ hafi verið að gera á bráðamóttökunni þegar þau hjónin voru þar í nóvember. Bryndís vill þó ekki varpa ábyrgðinni á einstaka starfsmenn spítalans, sem hafi vilja gera allt sem þeir gátu fyrir þau, heldur kerfið í heild sinni.

Viðtal Ríkisútvarpsins við Bryndísi í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka