Ólína Þorvarðardóttir, sem sótti um starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum en fékk ekki, telur að Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, eigi að segja af sér formennsku.
Greint var frá því í dag að Ólína hefði náð samkomulagi við íslenska ríkið um 20 milljóna króna bótagreiðslu, en kærunefnd jafnréttismála hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Þingvallanefnd hefði brotið gegn jafnréttislögum við skipan þjóðgarðsvarðar árið 2018, er nefndin valdi Einar Sæmundsen fram yfir Ólínu í starfið.
Þingvallanefnd er skipuð sjö þingmönnum, fjórum úr ríkisstjórnarflokkunum og þremur úr stjórnarandstöðu. Greiddu allir þingmenn meirihlutans atkvæði með Einari, sem er landfræðingur og landslagsarkitekt, en þingmenn stjórnarandstöðu kusu Ólínu.
Aðspurð segir Ólína ekki útilokað að ráðningin hafi verið á pólitískum forsendum. „Þetta er auðvitað pólitískt kjörin nefnd,“ segir Ólína. Hún segir umhugsunarefni að fulltrúar meirihlutans, sér í lagi formaður nefndarinnar, hafi hvorki axlað ábyrgð né séð sóma sinn í að biðjast afsökunar.
„Auðvitað vakna spurningar um hvort formaðurinn hafi verið að framkvæma vilja einhvers annars eða fylgja tilmælum sem komu annars staðar frá, til dæmis innan úr ríkisstjórninni,“ segir Ólína.
Spurð hvort hún sé ánægð með bótasamkomulagið, segist Ólína ekki vita hvað hún skuli segja. „Dómsmál hefði kannski getað orðið ríkinu dýrara, en dómsmál eru tímafrek og slítandi og ég taldi tímabært að leggja þetta mál aftur fyrir mig,“ segir hún.
Hún tekur undir með blaðamanni að samkomulagið sé ríkinu dýrt. „Þessi gjörningur nefndarinnar gagnvart almennum borgara verður dýr, en það á heldur ekki að vera ódýrt þegar ríkið brýtur á einstaklingum,“ segir Ólína.
Ari Trausti sagði við fréttastofu Stöðvar 2 í dag að hann ætlaði ekki að tjá sig um málið fyrr en Þingvallanefnd hefði rætt það, en næsti fundur er fyrirhugaður hjá nefndinni 22. janúar.