Fjársvelt heilbrigðiskerfi pólitísk ákvörðun

Vandi bráðamóttökunnar er tilkominn vegna plássleysis á öðrum deildum, að …
Vandi bráðamóttökunnar er tilkominn vegna plássleysis á öðrum deildum, að sögn Helgu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vandi heil­brigðis­kerf­is­ins ligg­ur ekki bara í bráðamót­töku held­ur í heil­brigðis­kerf­inu öllu sem fær mun minna fjár­magn en heil­brigðis­kerfi annarra OECD-ríkja. Þetta seg­ir Helga Vala Helga­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og formaður vel­ferðar­nefnd­ar.

Vandi bráðamót­töku hef­ur aft­ur kom­ist í há­mæli umræðunn­ar eft­ir að yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala greindi frá því að þar væri stór­slys í aðsigi.

Í gær greindi RÚV frá því að maður sem þjáðist af krabba­meini hafi verið send­ur of snemma heim af bráðamót­töku og hafi í kjöl­farið lát­ist. 

Helga Vala Helgadóttir, þingman Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helga­dótt­ir, þingman Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/​Hari

Helga Vala seg­ir að þær frétt­ir hafi í raun ekki komið henni í opna skjöldu miðað við það ástand sem ríki á bráðamót­töku. Yf­ir­lækn­ir­inn lýsti því þannig að legu­rými væru á göng­un­um, fólk væri veikt og ber­skjaldað og sýk­inga­varn­ir brostn­ar.

„Það er viðkvæmt að segja að þetta hafi ekki komið mér í opna skjöldu en það gerði það raun og veru ekki. Ég heyri hvað starfs­fólkið er að segja og starfs­fólkið er að lýsa hættu­ástandi og hef­ur gert það lengi,“ seg­ir Helga.

Vandi bráðamót­tök­unn­ar skort­ur á rými ann­ars staðar

Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra kynnti ný­verið lækk­un á komu­gjaldi á heilsu­gæslu. Eitt af mark­miðum lækk­un­ar­inn­ar er að fleiri leiti á heilsu­gæslu í stað bráðamót­töku og þannig leys­ist vandi bráðamót­töku að hluta. Helga seg­ir að vissu­lega sé já­kvætt að auka kom­ur á heilsu­gæslu.

Hún bend­ir þó á að vandi bráðamót­töku sé í raun ekki sá að fólk leiti þangað að til­efn­is­lausu enda starfi hjúkr­un­ar­fræðing­ur í mót­tök­unni sem grein­ir strax hvort fólk sé þar að til­efn­is­lausu. Vand­inn er frek­ar sá að rými vant­ar fyr­ir veikt fólk á öðrum deild­um, að sögn Helgu.

„Á bráðamót­töku ligg­ur fár­veikt fólk, langt leidd­ir krabba­meins­sjúk­ling­ar eða eldra fólk sem á að vera á öðrum deild­um.“

Helga segir að mannsæmandi laun séu mikilvægur þáttur í að …
Helga seg­ir að mann­sæm­andi laun séu mik­il­væg­ur þátt­ur í að leysa vand­ann. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Um 2% und­ir OECD-ríkj­um

Helga bend­ir á að Ísland leggi 8,3% af vergri lands­fram­leiðslu til heil­brigðis­kerf­is­ins á meðan ná­granna­lönd­in leggi 10-11% til þess. Meðaltal OECD-ríkj­anna er 8,8% og eru þar tek­in með mörg mun fát­tæk­ari lönd en Ísland. 

„Samt erum við núna með aukið fram­lag til Land­spít­ala vegna bygg­ing­ar Land­spít­ala. Það eru stjórn­völd sem taka ákvörðun um að hafa þetta svona, þetta er póli­tísk ákvörðun.“

Helga seg­ir að heil­brigðis­kerfið í heild sinni sé fjár­svelt og það sé ástæða vand­ans á bráðamót­töku. Á Land­spít­ala séu laus rúm og laus­ar deild­ir en ekki starfs­fólk til að sinna sjúk­ling­um þar.

Vandi heilbrigðiskerfisins einskorðast ekki við Landspítalann.
Vandi heil­brigðis­kerf­is­ins ein­skorðast ekki við Land­spít­al­ann. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Mann­sæm­andi laun lausn­in

Helga tel­ur því að kerfið þurfi ein­fald­lega meiri fjár­muni svo það geti borgað starfs­fólki, sér­stak­lega hjúkr­un­ar­fræðing­um og sjúkra­liðum, mann­sæm­andi laun.

„Þótt birt­ing­ar­mynd ástands­ins sé nú á bráðamót­töku þá ligg­ur vand­inn ekki bara þar. Ástandið í heil­brigðis­kerf­inu er vegna þess að heil­brigðis­kerfið er fjár­svelt. Það þarf að setja aukið fjár­magn á fleiri staði. Í heil­brigðis­stofn­an­ir úti á landi, í rekst­ur hjúkr­un­ar­heim­ila, það er ekki nóg að byggja hús­in, það þarf að vera hægt að reka þau. Það er ekki tryggt í fjár­lög­um. Það er verið að hætta með þjón­ustu á vel staðsett­um heil­brigðis­stofn­un­um víða um land sem væri svo auðveld­lega hægt að manna ef fjár­magn feng­ist. Það myndi minnka álagið á Land­spít­ala.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert