Tónskáldið Hildur Guðnadóttir hlaut í nótt Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlist sína í Hollywood-stórmyndinni Jókernum.
Hildur þakkaði í ræðu sinni meðal annars aðalleikaranum Joaquin Phoenix, fjölskyldu sinni og að lokum syni sínum, sem hún ávarpaði svo á hinu ástkæra ylhýra: „Þessi er fyrir þig.“
Hildur atti kappi við fjögur önnur tónskáld á verðlaunahátíðinni en hún var eina konan sem tilnefnd var í sínum flokki. Daniel Pemberton var tilnefndur fyrir tónlistina í Motherless Brooklyn; Alexandre Desplat fyrir tónlistina í Little Women; Thomas Newman fyrir 1917 og Randy Newman fyrir Marriage Story.
„Það er alveg yndislegt að finna stuðninginn frá Íslandi síðustu mánuði. Það er svo gaman að finna hvað fólk er spennt fyrir því sem er að gerast og fylgist vel með. Ég finn fyrir miklum stuðningi að heiman og það er náttúrlega algjörlega ómetanlegt að finna að heimastaðurinn manns sé með manni,“ sagði Hildur í samtali við mbl.is á fimmtudag.
Arnar Eggert Thoroddsen, sem skrifar um tónlist í Morgunblaðið og aðjúnkt við Háskóla Íslands, segir á Facebook að Hildur sé fyrsta konan til þess að hljóta verðlaunin ein en áður hafi Lisa Gerrard (Dead Can Dance) hampaði þeim árið 2000 í félagi við Hans Zimmer.
„Aðeins ein önnur kona hefur verið tilnefnd einsömul til verðlaunanna, Rachel Portman fyrir Chocolat (2000). Lausleg talning sýnir mér að alls hafi fimm konur verið tilnefndar frá upphafi (1947) af þeim liðlega 500 sem tilnefnd hafa verið. Mjög líklega er um hreina tilviljun að ræða, eða þá að konum sé einfaldlega fyrirmunað að semja góða kvikmyndatónlist,“ skrifar Arnar Eggert á Facebook.