Hildur hlaut Golden Globe-verðlaunin

Hildur með gullnu verðlaunastyttuna að athöfninni lokinni.
Hildur með gullnu verðlaunastyttuna að athöfninni lokinni. AFP

Tón­skáldið Hild­ur Guðna­dótt­ir hlaut í nótt Gold­en Globe-verðlaunin fyr­ir tónlist sína í Hollywood-stór­mynd­inni Jókern­um.

Hildur þakkaði í ræðu sinni meðal annars aðalleikaranum Joaquin Phoenix, fjölskyldu sinni og að lokum syni sínum, sem hún ávarpaði svo á hinu ástkæra ylhýra: „Þessi er fyrir þig.“

Hild­ur atti kappi við fjög­ur önn­ur tón­skáld á verðlauna­hátíðinni en hún var eina kon­an sem til­nefnd var í sín­um flokki. Daniel Pem­bert­on var til­nefnd­ur fyr­ir tón­list­ina í Mot­her­less Brook­lyn; Al­ex­andre Desplat fyr­ir tón­list­ina í Little Women; Thom­as Newm­an fyr­ir 1917 og Ran­dy Newm­an fyrir Marria­ge Story.

Tónskáldið hafði ærna ástæðu til að gleðjast í nótt.
Tónskáldið hafði ærna ástæðu til að gleðjast í nótt. AFP

Stuðningur að heiman

„Það er al­veg ynd­is­legt að finna stuðning­inn frá Íslandi síðustu mánuði. Það er svo gam­an að finna hvað fólk er spennt fyr­ir því sem er að ger­ast og fylg­ist vel með. Ég finn fyr­ir mikl­um stuðningi að heim­an og það er nátt­úr­lega al­gjör­lega ómet­an­legt að finna að heimastaður­inn manns sé með manni,“ sagði Hild­ur í samtali við mbl.is á fimmtudag.

Arnar Eggert Thoroddsen, sem skrifar um tónlist í Morgunblaðið og aðjúnkt við Háskóla Íslands, segir á Facebook að Hildur sé fyrsta konan til þess að hljóta verðlaunin ein en áður hafi Lisa Gerrard (Dead Can Dance) hampaði þeim árið 2000 í félagi við Hans Zimmer.

„Aðeins ein önnur kona hefur verið tilnefnd einsömul til verðlaunanna, Rachel Portman fyrir Chocolat (2000). Lausleg talning sýnir mér að alls hafi fimm konur verið tilnefndar frá upphafi (1947) af þeim liðlega 500 sem tilnefnd hafa verið. Mjög líklega er um hreina tilviljun að ræða, eða þá að konum sé einfaldlega fyrirmunað að semja góða kvikmyndatónlist,“ skrifar Arnar Eggert á Facebook.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert