Fyrstu hópar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg eru ekki komnir að vélsleðahópnum sem lenti í hrakningum á Langjökli fyrr í kvöld.
Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar upplýsingafulltrúa hefur færðin versnað síðasta klukkutímann sem hefur gert björgunarmönnum erfitt fyrir. „Skyggnið er fjórir til fimm metrar. Það er mjög vont veður þarna,“ segir hann en leitað er að 39 manns.
Á þriðja hundrað manns taka þátt í leitinni á einn eða annan hátt og eru um 50 hópar á leiðinni á svæðið.
Ekki er ljóst hvar vélsleðahópurinn, sem samanstendur af erlendum ferðamönnum, heldur sig nákvæmlega en vonast er til að hann finnist á næsta klukkutímanum. Unnið er út frá staðsetningu sem barst í fyrstu tilkynningu.
Að sögn Davíðs Más hafa fregnir borist af því að hópurinn sé kominn í öruggt skjól í skála en það hefur ekki fengist staðfest.
Uppfært kl. 23.46
Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, hafa upplýsingar borist um að fólkið sé komið inn í bíla sem eru stopp og bilaðir.
Leiðsögumenn hjá fyrirtækinu sem skipulagði vélsleðaferðina aðstoðuðu við að koma fólkinu í skjól en Sveinn Kristinn hefur ekki nánari upplýsingar um fyrirtækið.
„Við vitum ekkert um ástand á fólkinu,“ segir hann en tekur fram að enginn sé slasaður. „Fólk er væntanlega orðið kalt og hrakið og blautt.“ Hann segir alla áherslu lagða á að komast til fólksins sem fyrst en björgunarsveitarmenn eru enn að leita.