Grunur er uppi um misferli við meðferð og afgreiðslu lyfja í tveimur apótekum, annars vegar útibúi Lyfju í Reykjanesbæ og hins vegar hjá Lyfsalanum sem er til húsa í Glæsibæ í Reykjavík. Málin tvö komu upp fyrir jól, en þau tengjast og eru „einstök“, að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, en mál sem varða misferli við lyfjaafgreiðslu hér á landi hafa ekki komið upp árum saman.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið í Reykjanesbæ, en Lyfjastofnun hefur mál Lyfsalans í Glæsibæ enn til rannsóknar og hefur það mál ekki verið kært til lögreglu, samkvæmt Rúnu.
„Þetta er að mörgu leyti einstakt mál,“ segir Rúna, sem hefur verið forstjóri Lyfjastofnunar í fimm ár og ekki áður staðið frammi fyrir málum þar sem grunur er um misferli af þessu tagi.
„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og erum að bregðast við því með auknu eftirliti og með því að óska eftir því að mönnun í apótekum sé jafnframt bætt,“ segir Rúna.
Hún bætir við að nýlega hafi stjórnsýsluframkvæmd Lyfjastofnunar verið breytt hvað mönnun varðar, sem þýðir að nú þurfa apótek sérstakt leyfi til þess að hafa einungis einn lyfjafræðing á vakt hverju sinni.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að málið hafi komið inn á borð lögregluembættisins þar fyrir jól.
Það er „á viðkvæmu stigi“ og á því eru „ýmsir fletir“ að sögn lögreglustjórans, sem vildi af þessum sökum ekki tjá sig nánar um málið.
„Svona mál eru í sjálfu sér frekar flókin, þegar um er að ræða allt sem snertir lyf og meðferðina á því hvernig þeim er deilt út,“ segir lögreglustjórinn.
Lítið fæst staðfest um málin tvö, annað en að þau tengjast innbyrðis og að ástæða þess að þau komust upp er innra eftirlit Lyfju, sem lét Lyfjastofnun vita af málinu og kærði svo meint brot í Reykjanesbæ til lögreglu. Í framhaldinu fór Lyfjastofnun svo að skoða mál Lyfsalans í Glæsibæ að eigin frumkvæði, að sögn forstjóra stofnunarinnar.
mbl.is hefur heyrt af því að málin varði ýmis frávik frá því sem teljast mega eðlilegir starfshættir lyfsala, en ekkert fæst staðfest frá yfirvöldum um hvers eðlis meint brot eru.
Rúna segir í samtali við mbl.is að búið sé að skipta um lyfsöluleyfishafa í báðum apótekum frá því málið kom upp, en ekki fæst staðfest hvort lyfsalarnir sem grunaðir eru um misferli hafi verið sviptir lyfsöluleyfum sínum.
Lyfjastofnun er óheimilt að gefa það upp þar sem þær upplýsingar flokkast sem persónuupplýsingar þeirra sem þarna eiga í hlut. Rúna segir að ekki hafi komið til þess það að þyrfti að loka apótekunum, þar sem bæði höfðu staðgengla í stöðu lyfsöluleyfishafa.
„Málið er í rannsókn hjá okkur eins og er og ég get raunverulega ekkert upplýst frekar um málsatvik á þessari stundu, en umrætt mál kom í ljós í kjölfar úttektar hjá okkur vegna misferlis í meðferð og afgreiðslu lyfja,“ segir Rúna um málið í Glæsibæ.
Lyfsalinn Glæsibæ er lítið fjölskyldufyrirtæki, en nýlega steig María Jóhannsdóttir lyfjafræðingur þar inn sem nýr framkvæmdastjóri og lyfsöluleyfishafi apóteksins.
Hún segist í samtali við mbl.is hafa komið að fyrirtækinu í fyrsta sinn fyrir skemmstu og vildi ekkert tjá sig um rannsókn Lyfjastofnunar þegar blaðamaður leitaði eftir viðbrögðum frá fyrirtækinu. Blaðamaður náði ekki sambandi við fyrrverandi lyfsöluleyfishafa apóteksins.
Rúna leggur áherslu á að í kjölfarið á þessum málum muni Lyfjastofnun, sem hefur meðal annars það lögbundna hlutverk að hafa faglegt eftirlit með lyfjabúðum og sértækt eftirlit með afgreiðslu ávana- og fíknilyfja, auka eftirlit sitt með bæði apótekum og heilbrigðisstofnunum.
„Við erum fyllilega í stakk búin til þess að takast á við þau verkefni, við höfum verið að fjölga hjá okkur af eftirlitsmönnum,“ segir forstjórinn.
Áhersla verður lögð á það af hálfu Lyfjastofnunar að tveir lyfjafræðingar verði á hverri einustu vakt í apótekum, til þess að minnka líkurnar á misferli eða því að lyfjafræðingar misstígi sig við störf sín.
„Það er bara gott að það séu fleiri en einn á vakt. Heilbrigðisstarfsmenn geta misstigið sig í starfi og þá er mikilvægt að þeir séu með einhvern kollega sem er á vaktinni með þeim. Við leggjum áherslu á það að lyf eru ekki eins og önnur vara og það fylgir ábyrgð að afgreiða lyf og veita ráðgjöf og það er margt að varast í meðferð þeirra,“ segir Rúna.
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Lyfju segir að fyrirtækið hafi brugðist strax við málinu þegar það kom upp við innra eftirlit fyrirtækisins um miðjan desember.
„Við gripum strax til viðeigandi ráðstafana vegna þess, kærðum málið til lögreglu og tilkynntum til viðeigandi yfirvalda. Af því að málið er eins og er í þessum farvegi þá getum við ekki tjáð okkur neitt frekar um það,“ segir Sigríður Margrét.
Aðspurð segir hún að misferli af þessu tagi hafi aldrei áður komið upp innan fyrirtækisins, sem rekur 34 apótek víðs vegar um landið. „Við leggjum gríðarlega mikla áherslu á að vera með öflugt gæðakerfi og öflugt innra eftirlit,“ segir Sigríður Margrét.