Landhelgisgæslan fjarlægði í gær vaktskýli sem staðið hefur á Faxagarði í Gömlu höfninni í Reykjavík frá árinu 2004. Varðskýlið verður flutt til Helguvíkur í Keflavík. Skýlið er flutt sjóleiðina með varðskipinu Þór.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Gæslunnar, segir að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða þar til endanleg ákvörðun verður tekin um hvað gert verði við skýlið. Í Helguvík sé gott pláss til að geyma það.
Vaktskýli Landhelgisgæslunnar þarf að víkja fyrir nýrri spennistöð, sem Faxaflóahafnir ætla að reisa á Faxagarði, segir í Morgunblaðinu í dag.